miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hæst dæmdi litförótti stóðhestur allra tíma

1. júní 2019 kl. 10:20

Sörli frá Skáneyland

Áfram halda met að falla á kynbótasýningum í Evrópu

Það berast á hverjum degi tíðindi úr hrossaræktinni á meginlandi Evrópu. Á kynbótasýningu í Þýskalandi var sýndur á dögunum stóðhesturinn Sörli frá Skáneyland en hann hlaut í aðaleinkunn 8,30 þar af 8,44 fyrir hæfileika og 8,09 fyrir sköpulag.

Einkunnirnar einar og sér eru góðar, en það sem gerir þær áhugaverðar er sú staðreynd að Sörli er jarpvindóttur litföróttur. Hann er því, samkvæmt heimildum Eiðfaxa, hæst dæmdi litförótti stóðhestur frá upphafi kynbótadóma. Hæsta einkunn hlaut Sörli fyrir eiginleikana vilja og geðslag og tölt  9,0.

Sörli er fæddur í Svíþjóð og er fimm vetra gamall, ræktandi hans og eigandi er Mette-Lund Lindberg. Hann er undan Óðni vom Habichtswald, sem Eiðfaxi fjallaði um á dögunum þar sem hann hlaut háan kynbótadóma, í aðaleinkunn 8,79 og varð þar með hæst dæmdi þýsk fæddi stóðhesturinn. Það er einmitt skemmtilegt að þessir feðgar voru sýndir á sömu sýningu í Þýskalandi og báðir af Frauke Schenzel.

Móðir Sörla er Silfur-Lýsa frá Silverkedjan, en hún er fyrstu verðlauna hryssa vindótt/litförótt að lit. Litförótta litinn sækir Sörli því til móður sinnar sem kominn er út af bleiklitföróttum stóðhesti sem hét Fölskvi frá Kletti og var seldur út til Danmerkur á sjöunda áratug síðustu aldar.