mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hæst dæmda litförótta hrossið

1. janúar 2017 kl. 16:00

Úlfhildur frá Skíðbakka III, sýnandi Árni Björn Pálsson

Litafjölbreytni er eitt af megineinkennum íslenska hrossastofnsins og einn af hinum dýrmætu eiginleikum erfðafjölbreytileikans.

Árið 1995 voru ekki nema um 50 frjó litförótt hross í landinu og stefndi í algera útrýmingu gensins úr stofninum hér innanlands. Fyrir tilstilli og þrautseigju áhugamanna um litamynstrið var þó komið í veg fyrir það. Litförótt hross voru keypt og sett í ræktun. Árið 1999 hét Fagráð í hrossarækt einni milljón króna til styrkingar litföróttu í stofninum. Þrír fyrstu stóðhestar til að ná tilskildum lágmörkum inn á landsmót skyldu hljóta 300 þúsund krónur hver í verðlaun, og restina af upphæðinni, 100 þúsund krónur, skyldi nota til þess að greiða niður sýningargjöld á litför­ óttum hrossum. Aðeins hefur einn stóðhestur, Gjafar frá Eyrarbakka (IS1998187146), hlotið þessi verðlaun. Enn bíður því fjármagn fyrir eigendur vænlegra litföróttra fola. Farandbikar var komið á fót hér á landi en hann skal fara til þeirrar litföróttu hryssu sem kemur til kynbótadóms og hæsta einkunn hlýtur á ári hverju. Gefandi bikarsins er Jötunn Vélar ehf. á Selfossi. Bikarinn var veittur í fyrsta sinn haustið 2013 en þessar verðlaunaveitingar er hugsaðar sem hvati til eigenda litföróttra hrossa um að temja og sýna þau og rækta fram.

Úlfhildur frá Skíðbakka III hlaut þennan bikar í ár en hún var einnig hæst dæmda litförótta hrossið sem kom til dóms á þessu ári. Hún hlaut 8,20 í aðaleinkunn en fyrir hæfileika hlaut hún 8,43 og fyrir sköpulag 7,85. Úlfhildur er fimm vetra og er undan Kjerúlf frá Kollaleiru og Spes frá Skíðbakka III. Fjögur önnur litförótt hross voru sýnd í ár en Prins frá Bakkafirði var sýndur hér á landi, Sprengi-Hvellur frá Burrishof var sýndur í Austurríki, Roðadís frá Hvidagarden var sýnd í Svíþjóð og Ánægja frá Bujord var sýnd í Noregi. Af þessum hópi náði enginn fyrstu verðlaunum nema Sprengi-Hvellur en hann hlaut 8,03 í aðaleinkunn.