mánudagur, 11. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hærri kynbótadómar í Þýskalandi

10. nóvember 2014 kl. 16:39

Heimir Gunnarsson hélt erindi á aðalfundi FHB.

Þörf á auknu samræmi í framkvæmd kynbótasýninga.

Kynbótadómar í Þýskalandi voru hærri en búast hefði mátt við, með hliðsjón af meðalkynbótamati á þarlendum sýningum, í samanburði við meðaltöl dóma og kynbótamats á sýningum í öðrum löndum. Slíkt getur leitt til þess að kynbótamat hrossa, sem byggir á þýskum dómum, sé skekkt.

Það kom fram í máli Heimis Gunnarssonar sem hélt erindi um rannsókn sína á samanburði á kynbótadómum íslenskra hrossa milli sýninga og mat á föstum hrifum sýningartilfellis á aðalfundi Félags hrossabænda sl. föstudag.

„Ágæti kynbótamatsins er háð þeim gögnum sem það byggir á og talsverð umræða hefur verið í samfélagi hestamanna um hversu samanburðarhæfir alþjóðlegir kynbótadómar eru. Markmið þessarar rannsóknar var því að athuga hvort marktækur munur væri milli sýningartilfella innan og milli landa með því að skoða föst hrif sýningartilfellis út frá endurteknum dómum. Auk þess var lagt mat á hvort réttara kynbótamat fengist með því að leiðrétta fyrir sýningartilfelli í stað samhrifa sýningarlands og –árs,“ segir úrdrætti úr rannsókn Heimis.

Gögnin byggðu á 330 kynbótasýningum, frá fimm löndum, á árunum 2000-2013 þar sem sýnd voru 25 eða fleiri hross. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að þörf sé fyrir aukið samræmi í kynbótadómum svo tryggt sé að þau gögn sem lögð eru til grundvallar kynbótamatinu séu sambærileg. „Í þessu ljósi þarf að huga að framkvæmd kynbótadóma, staðla sýningaraðstæður enn frekar og jafnvel auka menntun dómara svo tryggt sé að dómar verði algjörlega samanburðarhæfir milli sýningartilfella,“ segir í þar jafnframt.