sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gustur frá Lækjarbakka seldur-

16. apríl 2010 kl. 14:16

Gustur frá Lækjarbakka seldur-

Stóðhesturinn Gustur frá Lækjarbakka er seldur en nýr eigandi er Gunnar Justinussen frá Færeyjum. Gustur verður áfram í þjálfun hjá Gretti Jónassyni en eins og menn muna sigraði Grettir ungmennaflokkinn á síðasta Landsmóti einmitt á Gusti.

Eiðfaxi var á ferðinni í Víðidalnum og hitti þá á þá félaga, Gunnar, Gretti og Gust.

Er stefnan tekin á landsmót?
Það er Grettir sem verður fyrir svörum: „Já það er hugmyndin og við erum að undirbúa okkur undir úrtöku."

Hvernig finnst Gretti að vera kominn í djúpu laugina, en hann er nú að fara inní fyrsta keppnistímabil sitt í fullorðinsflokki?
„Það er bara spennandi, ég er ágætlega undirbúinn undir það en auðvitað má gera ráð fyrir að keppnin sé miklu harðari þar en í yngri flokkunum, enda fullt af atvinnumönnum meðal keppenda. En ég er óhræddur og hef fulla trú á að við Gustur munum standa í þeim. Ég keppti í B-flokki hjá Herði í fyrra og sigraði það mót með 8,88 í aðaleinkunn, þannig að ég veit að við getum,“ segir Grettir brosandi.

En hvað segir nýr eigandi hestsins um málið?
„Jú, það er gaman að eignast svona frábæran hest og ég hef fulla trú á að þeir Grettir muni standa sig saman.

Hvað verður svo framhaldið, fer Gustur til Færeyja?
„Sjálfsagt gerir hann það einhvern tímann. Hann verður örugglega magnaður í fjöllunum heima í Færeyjum,“ segir Gunnar að lokum.