fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gunnarsvaka á Hvanneyri

16. mars 2012 kl. 09:04

Gunnar Bjarnason í ræðustól, á flugi!

Við lofum! – Þetta verður ekki leiðinlegt.

Sagnakvöld til heiðurs Gunnari Bjarnasyni verður haldið í safna- og menningarhúsinu „Halldórsfjósi“ á Hvanneyri fimmtudagskvöldið 29. mars n.k. og hefst kl. 20:00. Fram koma þjóðþekktir sagnaþulir og spaugarar sem flestir þekktu Gunnar af eigin raun sem nemendur hans frá Hvanneyri. Má þar nefna snillinga eins og Guðna Ágústsson, Sigga Sæm, Einar á Skörðugili og Valda Roy. Einnig láta ljós sitt skína menningarvitar eins og Gísli Einarsson og Bjarni safnstjóri á Hvanneyri auk þess sem karlakórinn Söngbræður kemur fram eins og hann leggur sig. Léttar veitingar í boði og léttur aðgangseyrir sem allur rennur í sjóð til að reisa minnisvarða á vori komanda til heiðurs hinum mikla meistara.

Gunnar Bjarnason þekkja allir hestamenn. Hann var fremstur meðal jafningja í að skapa hið stórkostlega ævintýri um Íslenska hestinn. Hann kynnti hestinn um lönd og álfur, beitti sér fyrir stofnun Landssambands hestamanna og skipulagði fyrsta Landsmótið á Þingvöllum 1950 auk þess að stofna FEIF, alþjóðasamtök um íslenska hestinn, ásamt félögum sínum í Evrópu. Hann var hrossaræktarráðunautur og kennari á Hvanneyri um árabil. Nemendur hans minnast hans sem hugmyndaríks og drífandi kennara sem átti það til að tala af slíkum eldmóði að nærstaddir tókust á loft. Í tímum var yfirleitt ekkert talað um það sem stóð í kennsluheftinu en menn lærðu samt. Hann var sagnaþulur af guðs náð.

Takið kvöldið frá – þessu má enginn missa af!
Velkomin að Hvanneyri

Hollvinir