þriðjudagur, 15. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gunnarsholts-stemmning í Rangárhöll

Jens Einarsson
6. apríl 2010 kl. 09:49

Færri komust að en vildu

Segja má að gamla góða Gunnarsholts-stemmningin hafi ríkt á stóðhestasýningu sem haldin var í Rangárhöllinni á laugardaginn var. Sex hundruð manns keyptu sig inn á sýninguna. Miðinn kostaði 3000 krónur. Úrval stóðhesta og afkvæma kom fram.

Sýningar Stóðhestastöðvarinnar í Gunnarsholti voru á sínum tíma með stærri viðburðum í hestamennskunni. Um tvö þúsund gestir sóttu þær að jafnaði. Nú þegar stóðhestasýning hefur verið haldin í Rangárhöll í annað sinn er ljóst að það er grundvöllur fyrir henni. Mun fleiri voru á sýningunni nú en í fyrra og komust færri að en vildu. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að Rangárhöllin tekur ekki fleiri en sex hundruð áhorfendur.

Fjöldi stóðhesta var sýndur. Ýmist með eða án akvæmi. Aron frá Strandarhöfði mætti með stóran afkvæmahóp og ekki annað hægt að merkja en hann félli áhorfendum vel í geð. Aron, sem var sýndur í reið, bar þó af hópnum, enda sérlega vel þjálfaður og sýndur af Huldu Gústafsdóttur. Sonur hans, Stígandi frá Stóra-Hofi, gaf þó föðurnum lítið eftir, flugrúmur, snarpur og mjúkur gæðingur.

Álfur frá Selfossi mætti með tvö ljómandi afkvæmi, sem sýnd voru í fyrra. Synir Öskju frá Miðsitju undirstrikuðu eina ferðina enn að hún er ein allra besta undaneldishryssa landsins. Arður, sonur hennar og Orra frá Þúfu, bar af. Myndarlegur, léttbyggður og rúmur töltari. Mörg fleiri eftirminnileg hross mætti nefna.

Tvö atriði stóðu upp úr á sýningunni. Hið fyrra þegar höfðinginn Orri frá Þúfu var leiddur í salinn og nokkur afkvæmi hans sýndu kosti sína í reið. Orri, sem er 24 vetra, var í sérlega fallegu standi. Hann er ennþá frjósamur og yngstu afkvæmi hans sem tamin hafa verið eru í fremstu röð. Synir hans hafa tekið við forystu í kynbótamati (Blupp), bæði hvað varðar sköpulag og hæfileika. Hann er óumdeildur konungur stóðhestanna.

Systkinin Alfa og Fláki frá Blesastöðum voru hins vegar rúsínan í pylsuenda sýningarinnar og slógu í gegn. Þau eru undan hryssunni Blúndu frá Kílhrauni, Kjarvalsdóttur frá Sauðárkróki. Alfa undan Orra frá Þúfu og Fláki undan Gígjari frá Auðsholtshjáleigu. Ljóst er að Blúnda er rakin gæðingamóðir og verður spennandi að sjá afkvæmi hennar á sýningum í vor og sumar.