miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Guðmundarstofa opnuð

13. desember 2013 kl. 15:32

Guðmundarstofa opnuð í desember 2013

„Var ákveðinn og duglegur að fá fólk með sér í sjálfboðavinnu.“

 

Guðmundarsofa var formlega vígð í gærkvöldi.  Hún  var nefnd eftir Guðmundi Ólafssyni, sem var ákaflega farsæll sem formaður Fáks. Stofan er ætluð til eflingar á hinni ýmsu starfsemi eins og fundi og samkomur. Guðmundur og fjölskylda hans færðu Fáki glæsilegt málverk af Guðmundi og „Formanns-Grána“ að gjöf.

Guðmundur gegndi hlutverki formanns á árunum 1976-1982 ásamt því að sitja við formennsku  í fjölda ára.  Hann var ákveðinn og duglegur að fá fólk með sér í sjálfboðavinnu. Þó hann hætti sem formaður þá sinnti hann því starfi áfram. Hann var meðal annars mikill hvatningarmaður hjálmanotkunar en hann reið með hjálm alla sína formannstíð. Hann ásamt öðrum vöskum Fáksmönnum stóð meðal annars fyrir ýmsum umbótum á Fáksvæðinu.

 „Ég flutti margar tillögur um breytingar á skipulagi sem stjórnarmaður í Fáki. Svæðið kallaði á miklar framkvæmdir sem olli stjórninni kvíða vegna fyrirsjáanlega mikilla útgjalda.  Í áhorfendabrekkuna vantaði mikið uppfyllingarefni ásamt moldarlagi og þökum.  Allt þetta leystist þó að kostnaðarlausu.  Við vorum svo heppnir að fá verktaka, sem var að byggja í Árbæjarhverfi, til að losa lóðauppgröft í brekkuna okkur að kostnaðarlausu,“ segir í afmælisbók Fáks.

 Meðal annarra verkefna sem Guðmundur var í forsvari með var að gera samninga við Rafmagnsveitu Reykjavíkur um lýsingu á svæðinu, fá göng undir suðurlandsveginn og lengi mætti telja.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá vígslunni í gærkvöldi og að lokum Guðmund á Formanns-Grána.