laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grisjun skóga með hestum-

3. febrúar 2010 kl. 14:47

Grisjun skóga með hestum-

Í morgun miðvikudaginn 3. feb var unnið að gerð sjónvarpsþáttar sem fjallar meðal annars um grisjun skóga á umhverfisvænan hátt og var notaður hestur við að draga trjábolina út úr skóginum. Þetta eru vinnuaðferðir sem notaðar voru allstaðar þar sem skógvinnsla var en víða er þessi aðferð enn notuð þar sem menn vilja vinna þessi störf á umhverfisvænan hátt.

Það er Landbúnaðarháskóli Íslands sem stendur að gerð þessa sjónvarpsefnis en þátturinn verður hluti af þáttaseríu sem skólinn hefur unnið um garðrækt, grænmetisræktun og fleira í þeim dúr. Myndatökur fóru fram í skóginum fyrir ofan garðyrkjuskóla LBHÍ á Reykjum í Ölfusi.

Hesturinn sem notaður var við gerð þáttarins er reyndar kominn á eftirlaun en hafði ekkert á móti því að vera tekinn úr stóðinu frá vinum sínum til þess að taka þátt í þessu verkefni. Það var Sara Dögg Traustadóttir sem sá um að stjórna klárnum. Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar Lbhí er stjórnandi  þáttanna.