laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grafalvarlegt ástand

Jens Einarsson
21. apríl 2010 kl. 11:48

Hefur flutt hross úr Fljótshlíð í Hrunamannahrepp

Sveinbjörn Sveinbjörnsson, lögfræðingur, er einn af eigendum Barkarstaða, sem er næst innsti bær í Fljótshlíð. Hann heldur hross þar. Segja má að bærinn standi við rætur Eyjafjallajökuls, þótt Markarfljótið sé á milli.

Sveinbjörn tók strax til þess ráðs þegar gosið á Fimmvörðuhálsi hófst að flytja hluta af hrossunum upp í Hrunamannahrepp, ef ske kynni að þetta væri aðeins upphafið að einhverju stærra og meira. Ennþá eru þó nokkur eldri hross og reiðhestar á Barkarstöðum. „Þetta er grafalvarlegt mál sem ekki sér fyrir endann á,“ sagði Sveinbjörn þegar H&H heimsóttu hann á Barkarstaði síðastliðinn laugardal. Svartan öskumökkinn lagið þá í suður og myrkvaði Eyjafjallasveit.

„Snúi hann sér í sunnan- og suðaustan þá erum við í sömu málum. Í dag er ég í senn þakklátur og hryggur. Það er gott að vera laus við öskuna, en jafnframt finn ég sárt til með kollegum mínum undir Eyjafjöllum. Þetta er hrikalegt ástand. Okkar kynslóð gæti verið að horfast í augu við náttúruhamfarir og harðindi sem við héldum að heyrðu sögunni til. En við skulum vona að þetta fari betur en á horfir,“ segir Sveinbjörn.