mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grænlensk börn fræðast um hestinn, land og þjóð

27. september 2012 kl. 14:55

Grænlensk börn fræðast um hestinn, land og þjóð

Síðastliðin 7 ár hefur Kalak vinafélag Íslands og Grænlands, fyrir tilstilli Skúla Páls forsprakka félagsins, staðið fyrir komu barna frá smáþorpum á austurströnd Grænlands.  Aðal markmiðið er sundkennsla, þar sem  aðstaða til sundkennslu er lítil sem engin á þeim landshluta. Um þrjátíu 11 ára gömul börn eru stödd hér á landi þessa dagana. Þau dvelja í 14 daga á landinu og ganga í Grunnskóla með íslenskum börnum í Kópavogi þann tíma. Ásamt sundkennslu er takmarkið að efla tengsl við land og þjóð. 

Á þriðjudaginn heimsóttu þau á meðal annars Beggu Rist hjá hestaleigunni Íslenski Hesturinn.  Eiðfaxi kíkti með. Begga bauð þeim í reiðtúr með aðstoð frá Gunnlaugi Briem og Hjálparsveit skáta.  Hún kynnti fyrir þeim hestinn okkar og  sérstöðu hans eins og gangtegundir, liti og fleira.  Að sögn Beggu Rist, skemmtu börnin sér konunglega, hafa verið mjög kát og algjörlega óhrædd við hestinn.  Flest höfðu þau aldrei snert hest áður en voru þó algjörlega óhrædd við að skella sér á bak eins og má sjá á meðfylgjandi mynd.