þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Göngur og réttir í algleymingi

Jens Einarsson
10. september 2010 kl. 10:54

Smalahross Gnúpverja við hestaheilsu

Göngur og réttir er nú í algleymingi. Flestar fjárréttir landsmanna eru framdar á bilinu 4. – 20. september, nokkrar fyrr, nokkrar seinna. Gnúpverjar rétta í Skaftholtsréttum við Árnes í dag, föstudaginn 10. september, og Skeiðamenn í Reykjaréttum á morgun. Einnig er réttað í Hrunaréttum í Hrunamannahreppi í dag.

Fjárréttir á Suðurlandi eru jafnan fjölsóttar. Brottfluttir koma í heimahagana og gera réttardaginn að hátíðisdegi. Fjölmargir hestamenn leggja einnig leið sína í fjárréttir. Æ fleiri hestamenn innsigla sumarið með því að fara ríðandi í fjárrétt. Hestaferðafyrirtæki koma einnig ríðandi með erlenda og innlenda gesti í réttirnar. Íshestar hafa mörg undanfarin ár riðið með hóp í Skaftholtsréttir.

Gnúpverjar segja að smalast hafi allvel. Um 2600 kindur voru í safninu sem rekið var til byggða að þessu sinni. Margir hafa haft áhyggjur af smalahrossum vegna hrossapestarinnar. Fjallmenn á Gnúpverjaafrétti sögðu sín hross hafa verið við hestaheilsu. Enginn hestur hefði veikst á afréttinum.