fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður hestakostur á Ræktun 2015

22. apríl 2015 kl. 09:49

Straumur frá Feti og Ólafur Andri Guðmundsson á Allra sterkustu 2015.

Hrannar, Hrynur og Straumur koma fram.

Spennandi kynbótahross munu koma fram á sýningunni Ræktun 2015 sem haldin verður í Ölfushöllinni nk. laugardagskvöld 25. apríl kl. 20.

"Þar verða áhugaverðir einstaklingar meðal annars alhliða gæðingurinn Hrannar frá Flugumýri, rýmis hesturinn Hrynur frá Hrísdal og hinn glæsilegi Straumur frá Feti.

Heiðurshryssa Suðurlands verður útnefnd og öll þau sunnlensku bú sem tilnefnd voru til ræktunarverðlauna sl. haust munu koma fram. Fjölbreyttir hópar af hryssum og stóðhestum mæta, auk ræktunarbússýninga frá Kjartansstöðum og Leirubakka svo einhver séu nefnd. Glæsihryssan og Lukkudóttirin Sara frá Stóra-Vatnsgarði mun sýna sig, en hún hefur heillað fólk upp úr skónum sem til hennar hefur séð.

Þá munu afkvæmi Gaums frá Auðsholtshjáleigu, Sveins-Hervars frá Þúfu og Kiljans frá Steinnesi gleðja gesti og margt, margt fleira.

Sýningin hefst kl. 20 á laugardagskvöld og fer forsala miða fram í Baldvin og Þorvaldi, Fákaseli, Top Reiter og Líflandi. Einnig er miðasala við innganginn. Miðaverð er kr. 2.500, frítt fyrir 12 ára og yngri," segir í tilkynningu frá aðstandenum sýningarinnar.