miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður aðalfundur FT

15. desember 2009 kl. 11:26

Góður aðalfundur FT

Aðalfundur Félags tamningamanna var haldinn í veitingahúsinu Kænunni í Hafnarfirði föstudaginn 14. desember síðastliðinn. Fundurinn var fyrir margra hluta sakir skemmtilegur og betur sóttur en sami fundur var fyrir ári síðan.
 
Það var gott andrúmsloft á fundinum, hugur var í fólki enda skemmtileg dagskrá fyrirliggjandi. Sérstakir gestir á fundinum voru formaður LH Haraldur Þórarinsson, fyrir hönd Félags hrossabænda Sigbjörn Björnsson, og Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur. Kristinn Hugason er FT félagi en hann kom með kynningu á skýrslu frá Markaðsnefnd, um markaðssetningu íslenska hestsins erlendis.

Jón Ó. Guðmundsson veitingamaður á Kænunni bar fram jólahlaðborð og voru veitingarnar vægast sagt veglegar.

Fundarstjórn var í höndum Sigurbjörns Bárðarsonar.

Fyrir utan venjuleg aðalfundarstörf , flutti Pétur Behrens erindi á fundinum sem fjallaði um ýmislegt úr sögu félagsins, kryddað með athugasemdum hans og hugleiðingum um reiðmennsku almennt. Var Pétur með myndasýningu máli sínu til stuðnings og féll erindið í góðan jarðveg, bæði skemmtilegt og fróðlegt. Pétur er einn af stofnfélögum FT og mikill reynslubolti í tamningu og reiðmennsku en hann var á sokkabandsárum FT afar virkur á því sviði.

Umræður á fundinum voru fjörugar og var jafnvel tekist á um einhver atriði. Það var skemmtilegt að heyra rætt um hesta, tamningu og reiðmennsku á þessum fundi meira en oft áður undanfarin ár.

Í skýrslu stjórnar var fjallað um meðal annars öflugt starf félagsins nú í haust en félagið hefur staðið fyrir sýnikennslum víða um landið, þar sem reiðkennarar innan félagsins hafa sýnt og kynnt aðferðir við tamningu og þjálfun og hafa þessar sýningar fallið í góðan jarðveg og verið fjölsóttar.

Aðeins bar Meistaradeild VÍS á góma og eru allir hestamenn sammála um mikilvægi þess starfs sem þar er unnið. Fagnar FT fréttum af því að breyta eigi gólfi reiðhússins, þar sem deildin er haldin, með því að setja ofaná það sem fyrir er lag af mýkra efni. Ennfremur fagnar félagið þeirri umræðu sem fréttir herma að séu á borði stjórnar MD þess efnis að keppnisgreinin „smali“ sé í endurskoðun.

Mikið starf er framundan hjá FT en félagið ætlar að halda áfram að bjóða uppá sýnikennslu og menntun af ýmsum toga og er það ánægjulegt fyrir skuldlausa félagsmenn að fá aðgang að þessum viðburðum á góðum afslætti eða jafnvel frían.

Árið 2010 eru liðin 40 ár frá því að FT var stofnað og hyggst stjórn félagsins minnast þess á einhvern sýnilegan hátt og voru á fundinum ýmsar hugmyndir í þá átt ræddar. Niðurstaða varð að stjórn muni skipa í afmælisnefnd sem mun ákveða og undirbúa það sem gert verður.

Þeir stjórnarliðar sem voru í endurkjöri voru kosnir til áframhaldandi starfa þannig að stjórn verður óbreytt áfram.

Stjórn FT skipa:
Sigrún Ólafsdóttir, formaður.
Herdís Reynisdóttir, varaformaður.
Hrefna María Ómarsdóttir, gjaldkeri.
Þórdís Anna Gylfadóttir, ritari.
Marteinn Njálsson, meðstjórnandi.
Guðmundur Arnarsson, varamaður.
Þórarinn Eymundsson, varamaður.