laugardagur, 17. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð sýning í Svaðastaðahöllinni

28. apríl 2013 kl. 17:29

Góð sýning í Svaðastaðahöllinni

Reiðhallarsýningin Tekið til Kostanna var haldin á laugardaginn í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki. Margt var um menn og hesta. Á sýningunni komu fram alhliða gæðingar, klárhross, afkvæmahópar og svo ýmis skemmtiatriði.  Í opnunaratriðinu riðu þeir Elvar E. Einarsson, Sölvi Sigurðarson og Þórarinn Eymundsson í broddi fylkingar en þeim fylgdu börn og unglingar úr hestamannafélögum Léttfeta, Stíganda og Svaða. Í þeim hópi var gaman að sjá Þórgunni, dóttir Þórarins Eymundssonar, en hún sat hana Golu frá Yzta-Gerði, gamlan Landsmótssigurvegara.

Flottar klárhryssur komu fram og má þar nefna hryssurnar Völu frá Hvammi sem Jóhann Ragnarsson sat og Sprungu frá Bringu sem Líney María Hjálmarsdóttir reið. Vala er undan Þokka frá Kýrholti og Hrefnu frá Víðidal, skemmtileg hryssa, dansaði á hægu tölti og býr yfir miklu rými. Stjörnuparið Fanney Dögg Einarsdóttir og Elvar Logi Friðriksson mættu á frændunum Gretti og Byr frá Grafarkoti en það er alltaf gaman að sjá þau Fanneyju og Gretti saman.

Dýrfinnustaðir buðu upp á afkvæmasýningu en bæði voru þar afkvæmi Hágangs frá Narfastöðum, sem og hann sjálfur, og afkvæmi þeirra Ingólfs og Unnar Erlu á Dýrfinnustöðum. Ingunn Ingólfsdóttir reið stóðhestinum Hnokka frá Dýrfinnustöðum og gerði sér lítið fyrir og lagði hann á skeið í gegnum höllina eftir að hafa riðið ýmsar æfingar með systkinum sínum. Greinilegt að þessir krakkar eru öllu vanir. Björg Ingólfsdóttir hafði látið það eftir sér að hann Steðji hennar væri víst brjálaður þó ekki hefði verið hægt að sjá að það hefði nein áhrif á hana. Trausti gaf systrum sínum ekkert eftir og reið eins herforingi á Hágangi og ekki hægt að sjá annað en að Trausti væri tilbúin í smalamennskuna í haust.

Afkvæmi Mola frá Skriðu mættu á sýninguna og vantaði ekki fótaburðinni í þann hóp. Í hópnum voru þau Sæludís frá Þórshöfn, Pistill frá Litlu-Brekku, Saga frá Skriðu, Óskastjarna frá Stóru Laugum, Björg frá Björgum og Gullinstjarna frá Höfða. Flott afkvæmi og greinilegt að Moli er að skila frá sér fótaburðinum.

Nokkrar alhliða hryssur voru sýndar en í þeim hópi var yngri systir Þóru frá Prestsbæ hún Þota frá Prestbæ en knapi á henni var Þórarinn Eymundsson. Þórarinn var atkvæða mikill á sýningunni og sýndi meðal annars Aronssonin Þey frá Prestbæ og efnilegan 5vetra graðhest, Gretti frá Saurbæ. Grettir er undan Fjörni frá Hólum og Golu frá Yzta-Gerði og er greinilega mikið töltefni.

Magnús Bragi Magnússon var með einkashow eins og honum einum er lagið en hann sýndi hryssuna Birtu frá Laugardal. Birta er undan Aris frá Akureyri og Brá frá Laugardal. Magnús sýndi Birtu lista vel og var greinilegt að ekkert vantaði upp á rýmið né fótaburðinn.

Afkvæmi Sendingar frá Enni kynntu sig vel en þar fóru þær systur Ösp frá Enni og Björk frá Enni fremstar í flokki. Ösp þarf vart að kynna en hún og Þórdís Erla hafa verið að gera það gott í keppni í ár sem og síðustu ár. Björk frá Enni er undan Hróð frá Refsstöðum og var setin af Þórarni Ragnarssyni en það vantaði ekki fasið á þeim bæ. Boðið var upp á skeið í gegnum höllina þar sem Sigvaldi Lárus Guðmundsson bar sigur úr bítum á bleikri hryssu, Sóldögg frá Skógskoti.

Korgur frá Ingólfshvoli mætti þarna með Artemisiu Bertus og að öllum öðrum ólöstuðum held ég að það sé óhætt að segja að hann hafi átt sýninguna. Flottur hestur og greinilegt er að hann er að komast í gír. Húnvetnsku dívurnar létu sitt ekki eftir liggja og enduðu sýninguna með frábæru atriðið. Riddarar Norðursins tóku síðan á móti þeim með rósum og sungu fyrir þær lagið Állinn af einstakri list.

Flott sýning, vel að henni staðið og mega aðstandendur hennar vera ánægðir með sín störf.

HF