mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð reiðmennska hefur sigur

3. febrúar 2012 kl. 10:40

Artemisa Bertus og stóðhesturinn Óskar frá Blesastöðum 1a.

En keisarinn í engum fötum

Góð reiðmennska, þjálfun og undirbúningur hafði sigur á fyrsta móti Meistaradeildar í hestaíþróttum þegar Artemisa Bertus varð efst í fjórgangi á Óskari frá Blesastöðum. Í næstu sætum komu einnig góðir reiðmenn og þjálfarar, sem leggja metnað í gott samspil manns og hests. Tveir efstu keppendurnir, Artemisa og Óskar, og Þorvaldur Árni Þorvaldsson og Segull frá Flugumýri II, báru þó nokkuð af. Það skyggði á að enn eru nokkrir knapar að nota stangmál með tunguboga, þrátt fyrir að flest bendi til að þær meiði hesta meira en önnur mél.

Artemisa stóð efst eftir forkeppni og það var enginn vafi að hún reið besta prógrammið. Óskar var sáttur, í góðum höfuðburði og notaði líkama sinn í meginatriðum rétt á gangtegundunum, út frá  skilgreiningu reiðmennskunnar. Takturinn góður. Gott jafnvægi. Hann er auðveldur „sporthestur“ frá náttúrunnar hendi, sjálfberandi og á auðvelt með að nota bak og afturpart. Frábær frammistaða í fyrstu keppni. Artemisa er staðfastur þjálfari sem fer eftir stafrófinu í þjálfuninni. Hún hefur nú sýnt okkur oftar en einu sinni að kerfisbundinn undirbúningur skilar sér, og má nefna sýningu hennar á Korgi frá Ingólfshvoli í fyrra. En auðvitað þarf efniviðurinn að vera góður ef ætlunin er að taka þátt í keppni. Óskar er undan Töfra frá Kjartansstöðum og Dúfu frá Skeiðháholti 2, Váksdóttur frá Brattholti.

Þorvaldur Árni Þorvaldsson og Segull frá Flugumýri II áttu góðan leik. Einkum áttu þeir góða kafla í forkeppninni, þar sem Þorvaldur kaus að ríða upp á hægri hönd, sem sennilega er hestinum auðveldari. Þorvaldur leysti verkefni sitt með sóma og undirstrikaði að hann er einn af bestu reiðmönnum landsins. Segull er glæsihestur og hefur ákaflega bragðmikla nærveru, en er þó ekki léttleika hestur og þurfti knapinn að hafa dálítið fyrir því að halda hestinum í umbeðnu formi. Segull er undan Víði frá Prestsbakka og Sif frá Flugmýri II, Kormáksdóttur frá Flugumýri II. Því skal haldið til haga að Metta Mannseth hefur að mestu leyti tamið og þjálfað Segul og sýnt hann í dómi. Hún keppti á honum síðastliðið sumar og náði 7,40 í fjórgangi, 7,70 í tölti og 8,70 í B flokki. Nýir eigendur Seguls eru Markus Karrer og Sandra Weber í Sviss.

Jakob Svavar Sigurðsson keppti á Asa frá Lundum II, sem er undan Bjarma frá Lundum II og Auðnu frá Höfða. Jafngóður hestur, bestur á feti og brokki, en var ekki alveg sáttur í gærkvöldi og ekki nægilega flottur til að setja punktinn yfir i-ið. Reiðmennska Jakobs dró þá að landi. Sveigur frá Varmadal hlýjar manni alltaf um hjartarætur með sínu eðlisgóða tölti og Hulda vann vel fyrir sínu sæti. Ólafur Ásgeirsson mætti með nýjan hest, Andvarasoninn Hugleik frá Galtanesi, undan Platínu frá Djúpadal, Platonsdóttur frá Sauðárkróki. Verulega álitlegur keppnishestur, en ábendingarnar fullmiklar á köflum. Ólafur hefur þó bætt ásetu sína til muna og er á réttri leið. Sigurður Sigurðarson og Loki frá Selfossi urðu í þetta sinn að láta sér sjötta sætið lynda, en þeir voru efstir í þessari grein í fyrra. Loki var einfaldlega ekki jafngóður og fyrir ári síðan. Alla vega ekki í þessari grein.

Í heildina fór þetta fyrsta mót Meistaradeildarinnar vel fram. Knapar vönduðu sig og flestum tókst vel upp. Sumir voru þó greinilega ekki nægilega vel undirbúnir. Og nokkur hross áttu ekki erindi, sem er slappt í Meistaradeild. Það jákvæðasta er þó að teprulaus og gagnrýnin umræða um íþróttadóma undanfarin misseri er að skila sér. Dómararnir voru á tánum og sýndu að þeir að þeir geta þetta vel ef þeir vanda sig. Þeir voru samstíga í meginatriðum og mjög lítið um „prívat túlkanir“ á leiðaranum. Þó var eins og hrópað væri: „Keisarinn er í engum fötum“ þegar fyrsti dómari, Kristinn Skúlason, skaut einum, ef ekki tveimur keppendum, upp fyrir Artemisu í forkeppninni, sem er sennilega tyrfið fyrir hann að rökstyðja.

A úrslit:
1 Artemisia Bertus        Hrímnir Óskar frá Blesastöðum 1A, 7,70
2 Þorvaldur Árni Þorvaldsson      Top Reiter / Ármót      Segull frá Flugumýri II, 7,60
3 Jakob Svavar Sigurðsson Top Reiter / Ármót      Asi frá Lundum II, 7,53
4 Hulda Gústafsdóttir     Árbakki / Norður-Götur  Sveigur frá Varmadal, 7,37
5 Ólafur Ásgeirsson       Spónn.is        Hugleikur frá Galtanesi, 7,27
6 Sigurður Sigurðarson    Lýsi    Loki frá Selfossi, 7,07