sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð ræktunarhryssa

21. desember 2011 kl. 12:59

Góð ræktunarhryssa

Í dag birtum við þessa fræðandi grein eftir Per S. Thrane sem birtist í jólablaði Eiðfaxa fyrir einu ári síðan:

Góð ræktunarhryssa – fyrsta skrefið í átt að árangri í hrossarækt

-eftir Per S. Thrane, Noregi

Þegar farsælir hrossaræktendur eru spurðir hver sé lykillinn að góðum árangri í ræktun er svarið oftar en ekki góð ræktunarhryssa. Þessa staðreynd hef ég margsinnis lesið í Eiðfaxa og öðrum fagtímaritum um hestamennsku og hrossarækt. Í kjölfarið væri eðlilegt að spyrja hver væri rétta aðferðin við að meta kosti minnar ræktunarhryssu. Hér að neðan hef ég tekið saman þær aðferðir sem ég hef notað við mat á mínum ræktunarhryssum og gætu nýst byrjendum í hrossarækt, eins og mér, við að meta sínar hryssur.

Ganghæfileikar

Hversu auðvelt er fyrir merina þína að feta, brokka, tölta, skeiða og stökkva? Hversu auðvelt er það fyrir merina þína að skipta um gangtegund? Það mun segja þér heilmikið um hversu vel hún greinir milli gangtegunda og hversu opin hún er fyrir þeim. Hvaða gangtegund er henni tömust? Hversu hreinn er takturinn? Hvernig er fótaburðurinn, hversu hár og kraftmikill? Hvað með jákvæðan vilja? Er hún einbeitt, áköf að halda áfram og að þóknast þér? Rannsakaðu hana með og án knapa á mismunandi hraða. Safnaðu saman öllum þeim upplýsingum sem þú getur fengið um hestinn þinn frá fyrri eigendum, þjálfurum og svo framvegis. Kynntu þér til hlítar útkomu úr fyrsta kynbótadómi hennar ef hún hefur verið sýnd, sér í lagi ef hún var sýnd fjögurra eða fimm vetra. Í ræktun ertu að fá hæfileika hestsins fram en ekki árangur margra ára þjálfunar. Ef þú hefur verið eigandi hryssunnar síðan hún var folald, hvernig voru hreyfingar hennar þá? Hvaða gangtegund kaus hún sem folald? Hvað með rými á hinum ýmsu gangtegundum? Taktu eftir afturfótaskrefinu, hversu vel hún setur afturfætur undir sjálfa sig og einnig hreyfingar framfóta hennar.

Erfir hryssan sterkt frá sér sína eiginleika?

Skoðaðu nákvæmlega folöldin hennar, persónuleika þeirra, hreyfingar og byggingu. Hversu lík eru þau móður sinni? Mundu það að persónuleiki folaldanna er undir miklum áhrifum frá umhverfinu, það er móðurinni. Nýttu tímann þegar folaldið hennar er tveggja til fjögurra vikna gamalt. Það ætti að gefa þér nokkuð góða hugmynd um það hvernig byggingarlag folaldsins er og hreyfingar. Afkomendur ræktunarhryssna eru mun færri en stóðhesta og því er erfiðara að dæma kynbótagildi þeirra. Ennfremur er staðreyndin sú, að ræktun tekur tíma og það er skynsamlegt að gefa fyrstu tveimur til þremur afkomendum ræktunarmerar þinnar mikinn gaum til þess að þú fáir hugmynd um kynbótagildi hennar, en þetta veistu ekki með neinni vissu fyrr en fyrstu afkvæmi hennar hafa verið tamin eða sýnd afkvæmadómurum. Svo þú þarft að hafa þolinmæði til þess að geta fundið út, eins fljótt og hægt er, hversu góð ræktunarmerin þín er í raun.

WorldFengur

Nýttu þér WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins. WorldFengur er gagnagrunnur með yfirgripsmiklum upplýsingum um yfir þrjú hundruð þúsund íslenska hesta, næstum því alla íslenska hesta í heiminum. Upplýsingar eru um ættir, kynbótadóma, einkunnir í keppnum, eigendur, ræktendur, kynbótamat (BLUP), lit, örmerki, frjósemi og annað, auk þess sem má skoða yfir fimm þúsund myndir af kynbótahrossum. Þú gætir byrjað á því að kynna þér ættir ræktunarhryssunnar þinnar. Spurningar sem þú gætir spurt þig að væru til dæmis: Hvernig var móðir hryssunnar þinnar? Hefur hún verið dæmd á kynbótasýningu eða í keppni – ef svo, hver var árangurinn? Hefur hún gefið af sér mörg góð afkvæmi? Hverjir af eiginleikum hennar komu sterkast fram? Frá móður hennar fær hún 50% af genum sínum og það sama frá föður sínum, 25% koma frá ömmu hennar og svo framvegis. Þannig að áhrifin frá foreldrum og forfeðrum eru veruleg. Samt sem áður vinna genin saman með umhverfinu sem skilur eftir nóg pláss fyrir breytileika og þar með óvissuþætti. Líttu bara á alsystur þína og/eða bróður, og þá sérðu að þú ert furðulega ólíkur og þannig er það með afkvæmi undan sömu hryssu og stóðhesti. Hvers vegna? Það er vegna þess að af um það bil þrjátíu þúsund genum veljast fimmtán þúsund þeirra handahófskennt fyrir hið nýja afkvæmi frá hverju foreldri, sem gefur kost á gífurlegum fjölda samsetninga og breytileika.

Dregið úr óstöðugleika – öruggari ræktun

Hvernig getum við unnið úr þessum upplýsingum? Við getum reynt að halda breytum í lágmarki og farið öruggar leiðir í ræktun. Til dæmis notað stóðhesta sem eru búnir að sanna sig, við getum tryggt gott uppeldi og notað tamningamenn sem eru búnir að sanna sig við frumtamningu, þjálfun og sýningar. Við getum lært af reynslumiklum hrossaræktendum, til dæmis hvaða ættlínur blandast best og hvað ætti að varast. En jafnvel með þessum leiðum er óvissuþátturinn enn stór. Það er ástæða þess að við ættum að hvetja til „opinnar ræktunar“ með lágmarks höftum líkt og tíðkast á Íslandi. Mörg kynbótatröll íslenskrar hrossaræktar, stóðhestar sem og hryssur, hefðu aldrei fæðst undir stífu regluverki. Á Íslandi er hrossarækt frjáls og engar hömlur á því hvaða stóðhesta má nota. Þessi frjálsa ræktun á stóran þátt í að viðhalda fjölbreytni genamengis íslenska hestsins sem er mikilvægt til þess að viðhalda hraustum, litríkum íslenskum hestum með hinum frábæru gangtegundum. 

Að finna stóðhest fyrir þína hryssu

Framför og bæting ætti alltaf að vera markmið í hrossarækt. Að skapa sitt eigið ræktunarmarkmið er mikilvægt, það er að rækta hross sem falla vel að lýsingunni að þínu draumahrossi, hrossi sem þú vilt eiga, ríða á og umgangast. Að stunda samlagningarval í ræktun er vel þekkt aðferð til að ná árangri. Hún gengur út á að para saman einstaklinga með ákveðinn eiginleika sterkan, til dæmis ef hryssan þín er vel vökur með 9,0 fyrir skeið að para hana við stóðhest með að minnsta kosti 9,0 eða jafnvel hærra fyrir skeið. Aukast þá líkurnar á því að afkvæmið verði með þennan ákveðna eiginleika sterkan. Ræktun tekur tíma og það eru mörg stutt skref í átt að þínu markmiði í ræktun. Folöldin sem þú færð eru besta handleiðslan á þeirri vegferð. Einnig er hægt að nota WorldFeng og BLUPið til að skoða áreiðanleika stóðhestsins í framræktun ákveðinna eiginleika. Til dæmis má nefna Orra frá Þúfu sem á fleiri en þúsund afkvæmi. Orri fær afburðaeinkunn fyrir hófa (BLUP 128 fyrir hófa) og er með um 100% öryggi fyrir þann eiginleika. Annað dæmi er heimsmeistarinn Viktor fra Diisa. Viktor er með 9,0 fyrir háls/herðar/bóga og BLUP 123 með 76% öryggi. Þegar meiri reynsla verður komin á Viktor sem undaneldishest mun koma í ljós hvort hans góði háls er aðallega hans karaktereinkenni sem einstaklings eða hvort þetta er einkenni sem erfist til hans afkvæma af miklu öryggi. Ef sterkur háls er líka karaktereinkenni þeirra hesta sem standa að baki Viktori (móðir, faðir, o.s.frv.) sem og bræðrum hans og systrum, þá er líklegra að eiginleikinn muni skila sér til afkomenda hans.

Hvað með veikleika hjá merinni þinni? Vertu heiðarlegur í þessu sambandi, enginn hestur er fullkominn og það eru alltaf einhver atriði sem má bæta. Í fyrsta lagi ættirðu að spyrja sjálfan þig hvort gallarnir í hryssunni séu svo veigamiklir að betra væri að nota hana ekki til undaneldis (til dæmis geðslagsbrestir eða hrekkir). Í öðru lagi þá ættir þú að reyna að bæta fyrir veikleikana í afkvæminu með því að velja stóðhest sem bætir veikleikann upp með styrk sínum á þessu sviði (til dæmis mjúkan hest á stirða hryssu). Í þriðja lagi, veittu skyldleikaræktun athygli. Með skyldleikaræktun má fá fram kosti beggja undaneldishrossa að miklum styrk í afkvæminu en auðvitað gallana líka. Skyldleikaræktun hefur haft gífurleg áhrif á íslenska hrossarækt – allt frá Ragnars-Brúnku Sveins Guðmundssonar frá Sauðárkróki, móður hinnar frábæru Síðu frá Sauðárkróki, til hins skyldleikaræktaða stóðhests Ófeigs frá Flugumýri. Hins vegar þarf að fara varlega í skyldleikaræktun þar sem rannsóknir og fyrri reynsla hafa sýnt fram á að skyldleikaræktun hefur neikvæð áhrif á frjósemi afkvæmisins.

Árangurslitlar breytingar á hæfileikadómum

Nýlega voru hinir svokölluðu þröskuldar í kynbótadómum hækkaðir ef svo má segja. Kröfur um hægt tölt í tölteinkunn og hægt stökk í stökkeinkunn voru hertar. Ég er þeirrar skoðunar að þetta muni ekki hjálpa íslenskri hrossarækt í sinni framför heldur hið gagnstæða. Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er sú að til að ná góðum árangri í hæfileikadómi með áðurnefndum þröskuldum þarf hrossið að vera mikið þjálfað áður en það er sýnt. Þetta þýðir að færri ung hross eru sýnd og það verður erfiðara að sjá hin virkilega hæfileikaríku hross snemma. Hins vegar tel ég að aukin áhersla á skeið með nýrri vægisbreytingu sé skynsamleg. Ennfremur að vægisaukning á fetgangi muni til lengri tíma litið hafa góð áhrif á heilsu hrossa. Þýsk rannsókn sýndi fram á að ef þú leyfir hestinum þínum að feta í byrjun, miðjum og í lok hvers reiðtúrs, hjálpar það brjóskinu milli liðanna að fyllast af vökva. Þar með dregur úr líkum á of miklu álagi á beinin/liðina og líkurnar á spatti minnka. Hross með góðan klárgang og frábært tölt eru líklega vinsælustu íslensku hrossin um þessar mundir. Hágeng með góðar grunngangtegundir og henta vel til keppni í tölti og fjórgangi. Það er orðið löngu tímabært að taka umræðuna um að skipta kynbótadómum upp í tvo flokka á næsta stig. Að hafa skiptingu, líkt og gert er í íþrótta- og gæðingakeppni (fjórgangur vs. fimmgangur og B-flokkur vs. A-flokkur) myndi einfalda málin mikið, vera hestvænna og vera líklegra til árangurs fyrir fleiri.

Hrossarækt og erfðafræði

Hrossarækt er enn að mestu leyti byggð á fyrri reynslu, útliti hestsins, hvernig hann hegðar sér og hreyfir sig, kallað svipgerð (phenotype). Jafnvel þótt erfðamengi hestsins sé þekkt (2,7 milljarðar DNA basapara samanborið við manninn sem er með 3 milljarða DNA basapara) mun það taka mörg ár áður en við verðum fær um að rannsaka til fullnustu allar þessar upplýsingar sem kallaðar eru arfgerð (genotype) hrossa, ef við þá nokkurn tíma getum það. Það myndi koma að góðum notum að geta fylgt eftir einu geni sem veldur sjúkdómi og sjúkdómum sem eru orsök fárra gena. Nýlegt dæmi er yfirstandandi rannsókn í því skyni að athuga gen sem veldur sumarexemi.

Einbeitið ykkur að einni eða nokkrum góðum ræktunarhryssum sem endurspegla ykkar sanna markmið í ræktun. Gæði eru mun mikilvægari en magn til að árangur náist. Reynið að styrkja eiginleika ykkar ræktunarhryssu í framræktuninni með því að velja stóðhesta sem hafa sannað kynbótagildi sitt hvað varðar ræktun á þessum sömu eiginleikum. Því meira sem þú veist um ræktunarmerarnar þínar og mögulega stóðhesta sem þú hefur hug á að nota, því betra. Samt sem áður spilar heppnin stóran þátt og það er alltaf möguleiki á óvæntri uppákomu, góðri og slæmri, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Við skulum aldrei gleyma, hins vegar, að við erum að rækta reiðhest sem ætti að veita okkur ánægju þegar við ríðum á honum og sem verður trúr og traustur vinur okkar í allri umgengni við hann. Því finnst mér að geðslagið skipti alltaf mestu máli!