miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Glóðafeykir frá Halakoti bestur klárhesta

1. júlí 2012 kl. 12:21

Glóðafeykir frá Halakoti er bestur klárhesta á LM2012. Einar Öder Magnússon, eigandi, ræktandi og knapi fagnar sigri. Mynd/KollaGr

Comeback hjá Einari Öder Magnússyni, sem er knapi, eigandi og ræktandi þessa fallega töltara undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum.

Glóðafeykir frá Halakoti er sigurvegari í B flokki á LM2012 í Reykjavík. Úrslitin voru bráðskemmtileg og illt að átta sig á hver myndi vinna á meðan á þeim stóð: Hrímnir frá Ósi, Loki frá Selfossi eða Glóðafeykir, sem voru fyrirfram sigurstranglegastir. Allir fengu háar einkunnir fyrir gangtegundir sitt á hvað.

En þegar kom að lestri tvöföldra einkunna, fyrir vilja og fegurð, kom fljótlega í ljós að Glóðafeykir var að sigla upp á öldutoppinn. Allir keppinautar Einars voru bersýnilega glaðir og sáttir fyrir hans hönd og þá ekki síst Guðmundur Björgvinsson, knapi á Hrímni, sem samfagnaði vini sínum innilega. Góður keppnisandi í gangi þarna.

Tveir efstu hestarnir, Glóðafeykir og Hrímnir eru synir Rökkva frá Hárlaugsstöðum, sem var bestur klárhesta á Íslandi um árabil, en gekk oft illa að sannfæra dómara um að hann væri það. Annað sætið mátti hann oftar en ekki gera sér að góðu.

Knapi á Glóðafeyki var eigandi hans og ræktandi, Einar Öder Magnússon, sem einnig er aldursforseti þeirra átta knapa sem riðu úrslitin. Einar varð frægur á LM1986 þar sem hann var aðal knapi mótsins og varð meðal annars eftur í A flokki á Júní frá Syðri-Gróf, sem reyndar var lítið síðri á tölti og brokki en klárhestarnir í úrslitunum í dag.

Allir hestarnir í úrslitunum eru glæsilegir sýningahestar og óhætt er að fullyrða að flestir þeirra eru úrvals reiðhestar einnig, mjúkir og liðugir töltarar. Úrslitin fórum vel fram, góð hlé á milli atriða, einnar til tveggja mínútna pása þar sem hestunum gafst kostur á að kasta mæðinni, og síðan komu góð hlé á meðan einkunnir voru lesnar eftir hverja gangtegund. Til hamingju Einar Öder, flott comebackf hjá þér :-)

B-flokkur gæðinga - úrslit
            
1 Glóðafeykir frá Halakoti / Einar Öder Magnússon 9,00         
2 Hrímnir frá Ósi / Guðmundur Björgvinsson 8,97         
3 Loki frá Selfossi / Sigurður Sigurðarson 8,95         
4 Eldjárn frá Tjaldhólum / Halldór Guðjónsson 8,77         
5 Sveigur frá Varmadal / Hulda Gústafsdóttir 8,72         
6 Freyðir frá Leysingjastöðum II / Ísólfur Líndal Þórisson 8,70         
7 Álfur frá Selfossi / Christina Lund 8,67         
8 Stefnir frá Þjóðólfshaga 1 / Viðar Ingólfsson 8,48