þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Glímuskjálfti í aðdraganda stjórnarkjörs

Óðinn Örn Jóhannsson
8. október 2018 kl. 16:05

Frá Landsþingi LH.

Landsþing LH 2018

Tvö ár eru síðan landsþing LH var síðast haldið í Stykkishólmi. Á því þingi var sitjandi stjórn öll endurkjörin sem gaf til kynna að hún hefði skilað góðu verki, væri samhent og ekki talin ástæða til breytinga. Ekki var síður ánægjulegt að mörg framboð bárust til setu í aðal- og varastjórn sem bar vitni um það, að félagar í LH létu sig málefni samtakanna skipti og voru tilbúnir að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum; niðurstaða kosninga til stjórnar endurspeglaði líðræðið án flokkadrátta. Undirritaður bauð sig fram til setu í aðalstjórn LH haustið 2016, náði ekki kjöri en tók sæti í varastjórn. Síðan þá hef ég haft tækifæri til fylgjast með störfum stjórnar LH og taka þátt eftir atvikum og get fullyrt að þeir sem þar standa í stafni vinna mikið verk af ósérhlífni og ekki sjálfgefið að fólk leggi slíkt á sig. Eitt er að afgreiða mál á fundi, annað fylgja því eftir og hrynda í framkvæmd; það er ekki á færi eins eða tveggja, þar þurfa fleiri að koma að verki og þannig hefur það verið.

Ég hef ekki skynjað málefnalega ágreining innan stjórnar LH, sem snertir hag samtakanna til lengri tíma. Auðvitað hefur verið tekist á um einstök mál, við það er ekkert óeðlilegt, en meirihluti atkvæða hefur ráðið niðurstöðu eins og vera ber. Ég veit að fundargerðir stjórnar frá þessum tveimur árum styðja þessi orð mín. Rekstur samtakanna er góður eins og reikningar bera vott um og engin stór ágreinings mál upp á borðinu frá mínum bæjardyrum séð. Það dregur að landsþing LH sem haldið verður á Akureyri 12 og 13 okt.

Nú kveður við annan tón en í Stykkishólmi fyrir tveimur árum. Ef marka má þau skrif sem birtst hafa, þá er allt upp í loft á stjórnarheimilinu og sitjandi formaður borin þungum sökum af varastjórnarmanni. Ég held að það sé erfitt að finna þessum ávirðingum stað í fundargerðum stjórnar og þetta er ekki mín upplifun af stjórnarháttum formanns. Það er ekki í þágu samtakanna að þyrlað sé upp moldviðri af þessu tagi og hvaða hvatir liggja til þess veit ég ekki og ætla ekki að reyna að geta mér til um það.

Ég veit hins vegar að á landsþinginu verða verk núverandi stjórnar lögð í dóm þingfulltrúa sem munu meta þau og vega og síðan verður gengið til lýðræðislegra kosninga um nýja stjórn fyrir LH

Ingimar Ingimarsson