sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Glæsileg sunnlensk hross

odinn@eidfaxi.is
19. apríl 2019 kl. 16:47

Sigur frá Stóra-Vatnsskarði

Stórsýning sunnlenskra hestamanna fór fram í gær.

Í gærkvöldi fór fram reiðhallarsýningin Stórsýning Sunnlenskra hestamanna í Rangárhöllinni. Húsfyllir var og stemmningin góð enda voru atriði af ýmsum toga í boði eins og vel æfð atriði yngstu kynslóðarinnar í Geysi, rallý á hestvögnum og grímuklæddar töltskvísur undir stjórn Magnúsar Lárussonar.

Auk þessa voru hefðbundin atriði ræktunarbúa, afkvæmahópa og hópar hryssna og stóðhesta. Strax eftir hlé voru stuttar kappreiðar á skeiði í gegn um höllina sem Sæmundur Sæmundsson vann en gaman er að brjóta sýningu sem þessa upp með slíku atriði sem sett var upp í hléi og gekk hratt og vel í framkvæmd.

Flest þau hross sem fram komu voru undir stjórn þeirra knapa sem þau hafa þjálfað en þó var undantekning á því þegar tveir þekktir stóðhesta komu saman fram undir stjórn nýrra eiganda og knapa. Þetta voru þeir Sigur frá Stóra-Vatnsskarði setinn af Vilborgu Smáradóttur en hann er undan Álfi frá Selfossi og Lukku frá Stóra-Vatnsskarði, hátt dæmdur klárhestur með 9,5 fyrir tölt. Með honum var svo sigurvegari 4 vetra flokks stóðhesta frá Landsmóti 2016 á Hólum; Sirkus frá Garðshorni setinn af  Kristínu Magnúsdóttur. Þeir fóru fimlega um salinn og gaman var að sjá þessa hesta í nýjum höndum.

Lokaatriði kvöldsins var svo skipað tveimur stjörnum frá síðasta Landsmóti, feðginunum Ský frá Skálakoti og Öskju frá Efstu-Grund. Skýr stóð efstur til 1.verðlauna fyrir afkvæmi á LM2018 og dóttir hans stóð efst í 4 vetra flokki hryssna á sama móti.

Sýningin var vel skipulögð og framkvæmd, en gaman er að sjá Rangárhöllina eftir þá uppliftingu sem hún hefur fengið og nutu gestir sér vel að best var séð.