mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Geðslagsprýði

16. október 2016 kl. 20:35

Katla frá Ketilsstöðum og Bergur Jónsson

Katla frá Ketilsstöðum skein skært í sumar

Nú er komið að síðasta hrossinu sem Eiðfaxi fjallar um í yfirferð sinni um þau hross sem hlutu 10 fyrir einstaka eiginleika í hæfileikum kynbótadóms sýningarárið 2016.

 

Katla frá Ketilsstöðum er fædd árið 2008 og var því átta vetra í sumar þegar hún hlaut sinn hæsta kynbótadóm. Katla hlaut fyrir sköpulag 8,28 og hæfileika 8,68 í aðaleinkunn 8,52. Hún hlaut m.a. 9,5 fyrir tölt, brokk, fegurð í reið, hægt tölt og hægt stökk. Fyrir vilja og geðslag hlaut hún einkunnina 10 og segir í dómsorðum um þennan eiginleika ásækni, þjálni, vakandi.
Katla er undan Gaum frá Auðsholtshjáleigu. Gaumur hlaut í sínum hæsta dómi 8,13 fyrir sköpulag fyrir hæfileika 9,05 og í aðaleinkunn 8,69. Hæsti dómur hans var á Landsmóti 2008 á Hellu þar sem hann stóð efstur í flokki 7.vetra og eldri stóðhesta. Gaumur fékk heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmótinu á Hólum í sumar. Móðir Kötlu er Ljónslöpp frá Ketilsstöðum dóttir Odds frá Selfossi og Snekkju frá Ketilsstöðum. Ljónslöpp hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2009. Hún á 10 sýnd afkvæmi meðaltal sköpulags þeirra er 8,14 og meðaltal hæfileika 8,265.
Katla frá Ketilsstöðum hefur náð glæsilegum árangri á keppnisvellinum með knapa sinn Berg Jónsson. Má því til handa nefna að hún var efst eftir forkeppni á Landsmóti í sumar í tölti, með einkunnina 8,70 en varð í þriðja sæti í A-úrslitum með 8,78 í einkunn. Hún var svo önnur í tölti á Íslandsmótinu á Selfossi í sumar með einkunnina 9,0. Hún hlaut í milliriðlum í B-flokki á Landsmótinu í sumar 8,73 og tryggði sér sæti í A-úrslitum þar sem hún endaði í fimmta sæti með einkunnina 8,85.
Katla frá Ketilsstöðum hefur því margsannað það á mörgum vettvangnum að hún er hæfileikarík geðslagsprýði.
Ræktandi Kötlu er Jón Bergsson en eigandi Guðmundur Þorsteinn Bergsson. Knapi á Kötlu í hæsta dómi og í keppni hefur verið Bergur Jónsson.