fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gári gæti breytt útliti íslenskra hrossa

Jens Einarsson
7. júlí 2010 kl. 13:57

Hefur afgerandi sérstöðu hvað sköpulag varðar

Hrossapólitíkin er skemmtileg. Aðallega fyrir það hve hún er oft á tíðum óútreiknanleg. Ef ekki út úr kú. Gári frá Auðsholtshjáleigu hefur algjöra sérstöðu sem kynbótahestur hvað sköpulag varðar. Ef rétt væri á haldið gæti hann breytt útliti hrossastofnsins til hins betra; í fegurð, stærð og samræmi. En þrátt fyrir þá augljósu staðreynd á hann marga andstæðinga meðal hrossaræktenda.

Fjörutíu og níu hross undan Gára hafa verið dæmd fyrir sköpulag. Meðaltal sköpulagseinkunna er 8,16, sem er einsdæmi hjá stóðhesti með svo mikinn afkvæmafjölda. Þá hafa 34 afkvæmi undan honum hlotið fullnaðardóm. Meðaltal aðaleinkunna er 8,03. Meðaltal einkunna fyrir hæfileika er hins vegar lægra, eða 7,92. Sem hins vegar er alls ekki lágt í samanburði við jafnaldra.

Á seinni kynbótasýningunni í Víðidal í sumar komu fram þrjú ný athyglisverð hross undan Gára. Tveir stóðhestar og ein hryssa. Lektor og Krókur frá Ytra-Dalsgerði hlutu báðir einkunn yfir 8,50 fyrir sköpulag. Lektor, 6 vetra, hlaut 8,55 fyrir sköpulag, 8,32 fyrir kosti og 8,41 í aðaleinkunn. Sem skipar honum í flokk hæst dæmdu stóðhesta. Krókur, 4 vetra, fékk 8,51 fyrir sköpulag, 7,88 fyrir kosti og 8,13 í aðaleinkunn.

Girnd frá Grund II er 5 vetra, sammæðra Grunni frá Grund. Hún hlaut 8,36 fyrir sköpulag og 7,93 fyrir kosti, klárhryssa. Hún fékk 9,0 fyrir framhluta og fegurð í reið. Smart hryssa. Nánar verður fjallað um afvæmi Gára og annarra jafnaldra hans í næsta tölublaði Hesta og hestamanna.