mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gagnrýnir aðbúnað á HM

10. september 2013 kl. 12:31

Aðbúnaður áhorfenda og keppenda á HM var óviðunandi að mati formanns LH.

Efla þarf hestamannafélögin.

Hvernig er hesturinn markaðsettur? Út frá hvaða sjónarmiðum eru áherslur í kynbótastarfi settar og hver setur þær? Fyrir hvern er verið að rækta hestinn? Hvar liggur fjöldinn í iðkendum hans? Hvernig stækkum við hópinn sem stundar Íslandshestamennskuna svo allir njóti góðs af?

 Þetta eru meðal þeirra spurninga sem formaður Landssambands hestamannafélaga, Haraldur Þórarinsson, spyr í pistli sínum “Að loknu HM í Berlín” sem birtist á vef LH í síðustu viku. Þar fer hann um víðan völl.

Hann gagnrýnir aðbúnað keppenda á svæðinu: “Hestarnir voru í tjöldum sem stóðu ofan á sandi en þar var hvorki loftræsti- né kælibúnaður þannig að hitinn í þeim nálgaðist fimmtíu gráður þegar verst lét.”

Aðbúnaður að áhorfendum vakti einnig margar spurningar. “Sjónarhorn þeirra sem sátu í yfirbyggðu stúkunni var ekki nógu gott og varla boðlegt á svona móti. Hrossin sáust aðeins heilstætt á skammhliðum.”

Þá kemur fram að gestir Heimsmeistaramótsins í ár voru rúm 13.000 talsins sem er töluverð aukning frá tveimur síðustu mótum. Skipulagning Heimsmeistaramóta er borið upp af sjálfboðaliðum og minnir Haraldur á það í lok pistilsins að með eflingu hestamannafélagana verði blásið til nýrrar sóknar hjá Íslandshestamennskunni.

“Það er einnig gott og hollt fyrir okkur hestamenn þegar við ræðum þessi mál að hafa þá staðreynd í huga, að HM íslenska hestsins er borið uppi af sjálfboðaliðum sem skipta hundruðum hvar sem það er haldið, án þeirra væri ekkert mót haldið. Þá er undirbúningur FEIF landa sem þátt taka í þessum viðburði að mestu leyti unnin í sjálfboðaliðsvinnu. Það eru hins vegar margir sem njóta góðs af þessari sjálfboðavinnu og er það vel. Menn verða þó að virða og skilja að það er starf hestamannafélaganna innan FEIF sem bera uppi Íslandshestamennskuna. Vilji menn efla hana verður að efla félögin og FEIF, aðeins þannig hefjum við nýja sókn með íslenska hestinn.”

Pistil Haraldar má nálgast í heild sinni hér.