sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gætum að beitilandinu

16. apríl 2012 kl. 14:51

Gætum að beitilandinu

Víða á Suðurlandi ber á ofbeit og liggja hrossabeitahólf undir skemmdum að er fram kemur í frétt vefsíðu Landgræðslu ríkisins. Orsakir þessa kunna að vera margar, s.s. minna hey, fjölgun hrossa og langvarandi beitarálag en brýnt er fyrir landeigendum að fylgjast vel með ástandi lands og skipuleggja beitina eftir því.

Bent er á upplýsingaritið Hrosshagar, aðferð til að meta ástand lands, í þeim efnum sem nálgast má hér.

Frétt Landgræðslunnar:

"Nú undanfarið hafa héraðsfulltrúar Landgræðslunnar á Suðurlandi veitt athygli að víða eru hrossabeitarhólf ofbeitt og liggja undir skemmdum vegna þess. Á þessum tíma ársins ber alltaf nokkuð á þessu vandamáli en svo virðist sem það sé meira áberandi nú en oft áður. Orsakir þessa kunna að vera margar s.s. minni hey, fjölgun hrossa eða langvarandi beitarálag sem nú kemur fram með þessum hætti.

Tjón á landi vegna ofbeitar kemur fyrst og fremst niður á frjósemi landsins og þar með á viðkomandi landeiganda. Uppskera minnkar, rofdílar myndast, rætur rýrna og landið ber færri skepnur. Í sumum tilfellum þarf að grípa til dýrra og langvarandi aðgerða til þess að lagfæra tjón eftir ofbeit þannig að þegar upp er staðið getur kostnaður landeiganda af slæmri landnýtingu orðið verulegur og íþyngjandi. Því er brýnt að fylgjast vel með ástandi lands og skipuleggja beitina eftir því.

Viðmiðanir um nýtingu lands til hrossabeitar:

  • Beitarskipulag ætti að byggja á skiptibeit og þar með að hvíla beitarhólf hluta úr vaxtartíma. Miða ætti við að öll beitarhólf hefðu einhverja sinu að hausti.
  • Viðkvæmu landi s.s. landi í halla ætti að hlífa við beit, ekki síst þegar frost er að fara úr jörðu.
  • Áberandi þúfur gefa vísbendingar um að land sé ofnýt.
  • Sina hlífir landi yfir veturinn og sinulaust land er gjarnan merki um ofbeit.
  • Uppskera minnkar við langvarandi ofbeit. Þetta getur leitt til þess að landeigendur lenda í vítahring sem ekki er auðvelt að komast út úr.

Nánari upplýsingar um mat á hrossahögum má finna í ritinu Hrossahagar sem gefið var út 1997 af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins. Hægt er að nálgast ritið hér.

Héraðsfulltrúar Landgræðslunnar eru reiðubúnir að aðstoða landeigendur við skipulag landnýtingar á jörðum sínum. Hægt er ná í þá í símum:

  • Garðar Þorfinnsson, sími 488-3040
  • Gústav Ásbjörnsson, sími 488-3039
  • Sigþrúður Jónsdóttir, sími 488-3027"