laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gætu kynbótasýningar orðið skemmtun í eitt kvöld ? -

12. ágúst 2010 kl. 16:20

Gætu kynbótasýningar orðið skemmtun í eitt kvöld ? -

Sörlamenn héldu í vikunni bráðsniðuga uppákomu sem þeir kalla sumartölt, töltkeppni sem var kláruð á einu kvöldi í miðri viku – stutt og laggot og er þeim hér með þakkað fyrir framtakið. En má ekki taka þessa hugmynd lengra og yfirfæra á fleira, til dæmis kynbótadóma ?

Lítil þróun í mótahaldi þrátt fyrir vel heppnaðar tilraunir

Það er óneitanlega umhugsunarefni hvað mótahald á Íslandi hefur í raun þróast ótrúlega lítið á síðustu þrjátíu árum eða svo.  Oftast nær, þegar um mót er að ræða þá taka þau alla helgina og oftar en ekki einn eða tvo daga í viðbót. 

Þessi aðferð að halda reglulega mót yfir sumarið hefur verið reynd á vegum Skeiðfélagsins og er komin nokkur hefð á skeiðleikana sem eru reglulega yfir sumarið, að kvöldi til í miðri viku.

Fyrir hestaáhugafólk er kjörið að eiga þess kost að kíkja eitt kvöld á keppni á hestum svona eins og að skreppa á völlinn og sjá einn fótboltaleik eða kíkja í bíó eina kvöldstund.

Þeirri hugmynd er því kastað hér fram að framtakssamir aðilar sjái nú tækifæri í því að skipuleggja mót með þessu sniði, það gætu verið einskonar töltleikar sem eru haldnir að kvöldi til með reglulegu millibili yfir sumarið, hugsanlega með einverju lokatakmarki í lok tímabilsins.

Þegar þetta er búið að vinna sér sess er tæpast nokkur vafi á að það verður vinsælt að skreppa eina kvöldstund að sumri í góðu veðri og kíkja á frábæra töltara í keppni sem tekur kannski hámark tvo klukkutíma.

 

Hvað með kynbótadóma ?

Svo má taka þessa hugmynd áfram og velta fyrir sér kynbótadómum. Af hverju þurfa kynbótadómar alltaf að fara fram á stórum sýningum þar sem safnað er saman fleiri hundruð hrossum og áhugafólk þarf  helst að nota sumarfríið sitt til þess að fylgjast með, og sýnendur að undirbúa og hross sýna í tugatali  á örfáum dögum ?

Má ekki hugsa sér að kynbótadómar færu fram einn dag í viku allt sumarið ?

Það má til dæmis ímynda sér að á miðvikudögum væru alltaf dæmd kynbótahross. Þeir gætu farið fram á mismundandi stöðum til skiptis, Hella – Selfoss – Víðidalur – Hafnarfjörður, einu sinni í mánuði á hverjum stað.  Það væri dæmt yfir daginn og svo yfirlitssýning um kvöldið. 

Með þessu móti væri mun jafnara álag hjá þeim sem hafa lifibrauð af því að þjálfa og sýna hross, ræktendur hefðu alltaf tækifæri til þess að sýna hrossið á þeim tímapunkti sem þeim finnst það vera best  undirbúið og tilbúið.  Spennan og álagið á menn og hesta sem skapast í kringum álagspunkta við kynbótasýningar mundi minnka eða jafnvel hverfa. 

Svo má alveg færa rök fyrir því að þetta sé áhorfendavænt, áhugafólk getur fylgst með hvaða hross mæta til dóms þann daginn og kíkt á yfirlit um kvöldið til þess að fylgjast með því sem áhuga þess vekur.

Þó hér sé tekið dæmi um Suðurland má hæglega heimfæra þetta uppá aðra landshluta.

 

Vissulega mætti halda stærri sýningar með eða hafa fleiri daga í viku sem kynbótadaga ef fyrirkomulagið reynist vel. Þetta er að minnsta kosti hugmynd sem vert er að skoða. -hg