sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gæsahúðarmót í Flyinge

26. apríl 2011 kl. 11:12

Magnús Skúlason varð efstur í fimmgangi á Hraunari frá Efri-Rauðalæk.

Jóhann með 9,5 út úr töltúrslitum

„Þetta var gæsahúðarmót,“ segir Pjetur N. Pjetursson, hestadómari, um hestaíþróttamótið í Flyinge í Svíþjóð, sem haldið var um helgina. Viðtal við hann er á Hestafréttum, en hann var dómari á samt konu sinni Elsu Magnúsdóttur og dóttur þeirra Sigríði Pjetursdóttur. Þar mættu margar stórskyttur á meðal knapa í Íslandshestamennskunni. Þar á meðal Jóhann og Magnús Skúlasynir, — sem þó eru ekki bræður, svo vitað sé!

Flyinge, sem er um 15 kílómetra frá Lundi í Suður Svíþjóð, er stærsta og virtasta stóðhesta- og hestamiðstöð Svíþjóðar. Hún á sér sögu allt aftur til tólftu aldar, en var fest í sessi 1661 sem konungleg stóðhestastöð af Carli Gústafi X. Hestamiðstöðin er einkum fyrir stóra hesta.

Íslandshestamótið um helgina var skipulagt af Aðalsteini Aðalsteinssyni, að því er fram kemur í viðtalinu við Pjetur, sem hrósar framkvæmd og skipulagi í hástert. Pjetur segir sýningar mótsins hafa verið svo góðar að fáu sé saman að jafna þau 30 ár sem hann hefur verið við dómstörf í hestaíþróttum. Pjetur segir að sýningar þeirra Jóhanns í töltinu og Magnúsar í fimmgangi hafi verið sérlega góðar og aðeins slys geti komið í veg fyrir verðlaunasæti á HM í Austurríki. En margir fleiri hafi átt frábærar sýningar. Sjá viðtalið við Pjetur HÉR. Heimasíða Flyinge Íslandshestamóts er HÉR. Og úrslit má finna HÉR.