mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gæfa og gjörvileiki stóðhestanna

29. júní 2012 kl. 16:31

Kraftur frá Efri-Þverá, knapi Eyjólfur Þorsteinsson. Hestur sem byrjaði á toppi 4 vetra en hefur ekki náð flugi síðan.

Kraftur frá Efri-Þverá var efstur í 4 vetra flokki stóðhesta á LM2006. Þá voru Álfur frá Selfossi og Krákur frá Blesastöðum neðar í sama flokki, enda klárhestar.

Kraftur frá Efri-Þverá stóð efstur 4 vetra stóðhesta á LM2006 á Vindheimamelum með 8,35 í aðaleinkunn. Bráðfallegur og jafngóður alhliða gæðingur undan Kolfinni frá Kjarnholtum.

Hann hefur þó ekki náð flugi sem stóðhestur. Ekki hefur heppnin alltaf verið með. Um tíma glataði hann töltinu, sem jafnan hefur verið upp á 8,0 og 8,5.

Litlu munaði að hann kæmist í B úrslit í A flokki á LM2012. Hann var í 14. sæti eftir forkeppni, en hafnaði í því 16. í milliriðlum. Knapinn Eyjólfur Þorsteinsson má þó vel una við niðurstöðuna, því Kraftur hefur aldrei verið betri. Eyjólfur reið hestinum með hringamélum, sem eru orðin fremur sjaldgæfur beislabúnaður, og fór afar vel á með þeim félögum.

Reyndar töldu „sérfræðingar“ inni á hringvellinum að Kraftur fengi mun hærri einkunn fyrir sýninguna, allar gangtegundir takthreinar og góðar og framgangan ákveðin. En þeir eru ekki síður skeikulir en aðrir.

Kraftur er jafngamall Álfi frá Selfossi og Kráki frá Blesastöðum, sem báðir eru sýndir með afkvæmum á LM2012. Þeir voru sýndir 4 vetra á LM2006 en spegluðu sig í afturfóta skeifunum á Krafti þar. Kraftur á 121 skráð afkvæmi en aðeins eitt er með fullnaðardóm. Þess ber þó að geta að fyrstu afkvæmin fæddust 2007 þegar Kraftur var 5 vetra.