fimmtudagur, 20. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gæðingamót Smára

22. júlí 2012 kl. 11:47

Gæðingamót Smára

"Gæðingamót og opið töltmót Smára var haldið laugardaginn 21. júlí í Torfudal á Flúðum. 

 
Veðurspáin var ekki góð fyrir daginn en spáð var djúpri lægð með rok og rigningu. Mótið byrjaði samt í blíðskaparveðri og hélst lengi svo frameftir. Helstu stríðnispúkarnir vour kríurnar sem þykjast eiga hluta vallarins og voru ansi aðgangsharðar á knapana þegar þeir riðu framhjá “þeirra” svæði. Nokkrir knapar fengu gogga í hjálmana sína og sannast enn og aftur hversu gott er að hafa þennan öryggisbúnað á kollinum. 
 
B-flokkur reið á vaðið og voru sautján úrvals hestar skráðir til leiks. Keppnin var hörð og frekar jöfn en flokkinn sigraði Dögg frá Steinnesi en knapi hennar var Ólafur Ásgeirsson. Í öðru sæti varð Þokki frá Þjóðólfshaga og Hólmfríður Kristjánsdóttir og í þriðja sæti varð Sörli frá Hárlaugsstöðum sem Pernille Lyager Möller reið. 
 
Þá var komið að barnaflokki og voru þar snillingar framtíðarinnar að spreyta sig. Fimm hestar voru skráðir til leiks og létu þau kríuna ekki slá sig út af laginu.  Flokkinn vann Halldór Fjalar Helgason á Þokka frá Hvammi I en hann fékk einnig ásetuverðlaun barna. Í öðru sæti varð Þorvaldur Logi Einarsson á Eld frá Miðfelli 2 og í þriðja sæti varð Ragnheiður Björk Einarsdóttir á Rúbín frá Vakurstöðum. 
 
Þegar kom að unglingaflokki var aðeins farið að þykkna upp en veðrið lék enn við keppendur og áhorfendur. Í unglingaflokk voru sex keppendur á sjö hestum en eftir úrslitin sat Sigurbjörg Bára Björnsdóttir á Hátíð frá Vorsabæ II uppi sem sigurvegari og hneppti ásetuverðlaunin einnig. Athygli vakti að allir hestar í úrslitum í unglingaflokki voru jarpir að lit. Í öðru sæti varð Björgvin Ólafsson á Sveip frá Hrepphólum og þriðja sæti hneppti Guðjón Örn Sigurðsson á Golu frá Skollagróf.
 
Í A flokk voru skráð tíu hross og þurfti einn knapi að hafa sig allan við því hann var skráður með fjögur af þessum fínu hrossum. Eftir harða keppni og flotta skeiðspretti var ljóst að sigurvegari var Nótt frá Jaðri sem Ólafur Ásgeirsson reið. Hreppasvipan góða kom því í þeirra hlut en hún er elsti verðlaunagripur í gæðingakeppni á landinu. Eins og fyrir ári þá munaði aðeins 0,01 á fyrsta og öðru sæti en í því lentu Flipi frá Haukholtum og Guðmann Unnsteinsson en í þriðja sæti varð Prins frá Vestra-Geldingaholti sem Sigfús Guðmundsson reið. 
 
Þegar úrslitin voru riðin var töluvert farið að þykkna upp og fyrstu rigningardroparnir féllu á unglingana okkar en létu þó A-flokks fólkið finna meira fyrir sér. Að gæðingakeppni lokinni tók við opið töltmót en þar voru 27 knapar og hestar búnir að skrá sig til leiks. Ákveðið hafði verið að einn knapi riði í braut en oft á tíðum hafa tveir knapar verið inn á vellinum á þessu töltmóti félagsins. Reyndist þessi breyting leggjast vel í keppendur og fengu hestarnir að njóta sín einir á vellinum. Veðrið var farið að segja aðeins til sín og urðu knapar blautir en þrátt fyrir það var keppnin mikil og góð.
 
Þrátt fyrir að nokkuð hafi verið af afskráningum voru riðin B-úrslit en þau vann Viggó Sigursteinsson á Ósk frá Hrafnagili. 
Þegar A-úrslit í tölti voru riðin sáu veðurguðirnir sér leik á borði og skrúfuðu fyrir rigninguna öllum til mikillar ánægju. Keppnin var skemmtileg á að horfa og að lokum stóð Ólafur Ásgeirsson uppi sem sigurvegari á Stíganda frá Stóra-Hofi. Í öðru sæti varð Sigurbjörg Bára Björnsdóttir á Blossa frá Vorsabæ II og í þriðja sæti varð Matthías Leó Matthíasson á Keim frá Kjartansstöðum. "
 
Meðfylgjandi eru helstu úrslit dagsins.
 
B FLOKKUR GÆÐINGA
1 Dögg frá Steinnesi/Ólafur Ásgeirsson 8,68
2 Þokki frá Þjóðólfshaga 1/Hólmfríður Kristjánsdóttir 8,47
3 Sörli frá Hárlaugsstöðum/Pernille Lyager Möller 8,45
4 Jódís frá Efri-Brúnavöllum I/Hermann Þór Karlsson * 8,32
5 Sigurdís frá Galtafelli/Guðmann Unnsteinsson 8,25
 
A FLOKKUR GÆÐINGA
1 Nótt frá Jaðri/Ólafur Ásgeirsson 8,49
2 Flipi frá Haukholtum/Guðmann Unnsteinsson 8,48
3 Prins frá Vestra-Geldingaholti/Sigfús Guðmundsson 8,24
4 Sameignar-Grána frá Syðri-Gróf 1/Hermann Þór Karlsson* 7,93
5 Askja frá Kílhrauni/Hólmfríður Kristjánsdóttir* 7,84
 
UNGLINGAFLOKKUR
1 Sigurbjörg Bára Björnsdóttir/Hátíð frá Vorsabæ II 8,57
2 Björgvin Ólafsson/Sveipur frá Hrepphólum 8,35
3 Guðjón Örn Sigurðsson/Gola frá Skollagróf 8,28
4 Gunnlaugur Bjarnason/Riddari frá Húsatóftum 2a 8,15
5 Kjartan Helgason/Þöll frá Hvammi I 8,1
 
BARNAFLOKKUR
1 Halldór Fjalar Helgason/Þokki frá Hvammi I 8,36
2 Þorvaldur Logi Einarsson/Eldur frá Miðfelli 2 8,133
3 Ragnheiður Björk Einarsdóttir/Rúbín frá Vakursstöðum 8,132
4 Þórey Þula Helgadóttir/Gerpla frá Hvammi I 7,74
 
 
B ÚRSLIT TÖLT
1 Viggó Sigursteinsson/Ósk frá Hrafnagili 6,22
2 Smári Adolfsson/Eldur frá Kálfholti 6
3 Gunnar Jónsson/Vífill frá Skeiðháholti 3 5,61
4 Aðalsteinn Aðalsteinsson/Brúnblesi frá Sjávarborg 5,17
5 Ingvi Karl Jóhannson/Hrafntinna frá Miðfelli 5 0
 
 
A ÚRSLIT TÖLT
1 Ólafur Ásgeirsson/Stígandi frá Stóra-Hofi 7,72
2 Sigurbjörg Bára Björnsdóttir/Blossi frá Vorsabæ II 7,22
3 Matthías Leó Matthíasson/Keimur frá Kjartansstöðum 6,72
4 Ingólfur Arnar Þorvaldsson/Dimmblá frá Kjartansstöðum 6,44
5 Hólmfríður Kristjánsdóttir/Þokki frá Þjóðólfshaga 1 6,28
6 Viggó Sigursteinsson/Ósk frá Hrafnagili 5,17