miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gæðingafimi í Meistaradeildinni

22. febrúar 2017 kl. 17:00

Eiðfaxi fær hestamenn til að spá fyrir um úrslit í gæðingafimi

Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum verður haldinn annað kvöld í Samskipahöllinni í Spretti.

Blaðamaður Eiðfaxa ákvað að fá hestamenn til þess að spá fyrir um tíu efstu í gæðingafimi.

Sigurður Straumfjörð Pálsson, gæðingadómari og lífskúnstner

Eftirvæntingarnar eru miklar fyrir keppni í Gæðingafimi Meistaradeildarinnar. Mótaröðin fór vel af stað í fjórgang og ljóst að bæði knapar og hestar eru í gríðargóðu formi. Ég hef miklar mætur á þessari keppnisgrein þar sem fagmennskan er að leiðarljósi. Undanfarið hafa klárhestarnir átt meira brautargengi þar sem alhliðahestur hefur ekki sigrað síðan Atli og Ormur sigruðu þetta um árið. Ég spái að það verði breyting þar á og að Sylvía og Héðinn Skúli taki gullið eftir harða baráttu við Elínu og Frama. Síðan verða Jakob, Árni og  Bergur ekki langt undan. Flestir knapar og hestar í topp tíu verða góðkunningjar verðlaunapallsins frá fyrri keppnum. Keppnin verður samt það sterk að dagsformið mun ráða hver hampar titlinum að lokum. Því má ekkert útaf bregða!

1.       Sylvía Sigurbjörnsdóttir - Héðinn Skúli frá Oddhóli
2.       Elín Holst – Frami frá Ketilsstöðum
3.       Jakob Svavar Sigurðsson – Gloría frá Skúfslæk
4.       Árni Björn Pálsson – Skíma frá Kvistum
5.       Bergur Jónsson – Katla frá Ketilsstöðum
6.       Freyja Amble Gísladóttir – Álfastjarna frá Ketilsstöðum
7.       Ásmundur Ernir Snorrason – Spölur frá Njarðvík
8.       Sigurður Vignir Matthíasson – Arður frá Efri-Þverá
9.       Guðmundur Björgvinsson – Straumur frá Feti
10.    Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir – Óskar frá Breiðsstöðum

Hekla Katharína Kristinsdóttir, tamningamaður og reiðkennari í Árbæjarhjáleigu II

Ég veðja dýrast á mest reyndu keppnishrossin. Mér sýnist keppnin í ár gefa fyrirheit um frábærar sýningar. Það ætti líka að vera kappsmál hjá okkar fremstu knöpum að sýna alvöru reiðmennsku og vera vel undirbúinn fyrir þessa krefjandi grein. Þessi grein á að geta opinberað góða og uppbyggjandi þjálfun en þá er reyndar samt staðreynd að ríða þarf allar æfingar (þar sem það á við) upp á báðar hendur. Einhverjar endurbætur hafa nú samt orðið á reglunum og ég hlakka bara mikið til að fylgjast með keppninni á fimmtudaginn.

1. Jakob og Gloría
2. Árni og Skíma
3. Bergur og Katla
4. Elin og Frami
5. Sylvía og Héðinn Skúli
6. Ásmundur og Spölur
7. Sigurður Óli og Hreyfill
8. Gummi Björgvins og Straumur
9. Hinni Braga og Pistill
10. Freyja Amble og Álfastjarna

Birgitta Bjarnadóttir, tamningamaður að Forsæti í V-Landeyjum

Í Gæðingafiminni finnst mér oft skína af klárhestunum og þykir mér oft eins og alhliða hrossin eigi ekki séns í þessari grein - Allavega ekki enn sem komið er . Svakalega mikið af sterkum hestum skráðum til leiks og erfitt að raða í efstu sætin ! Hinrik set ég á blað þar sem mér þykir hesturinn vera að þróast rosalega skemmtilega hjá honum ef ekki hefði verið fyrir örlitla hnökra í fjórgangnum hefði hann flogið í úrslit, við höfum ekki fengið að sjá Ásmund og Spöl á þessu ári en ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir komi sterkir til leiks. Mitt uppáhalds par verð ég því miður að setja í 4 sætið en þetta par er eitt það besta á landinu í dag að mínu mati Elín og Frami. Í það þriðja kemur Jakob Svavar en hann kemur alltaf með rosalega vel undirbúin hross og er alltaf flottur í gæðingafimini. Í annað sætið læt ég hann Berg og hana Kötlu Vígalegt par. Sigurvegarinn í ár tel ég að verði sá sami og í fyrra Árni Björn og Skíma , þau rokka völlinn saman og eru bara flott. Yfir öllum þessum hrossum býr viss X-Factor og þetta verður erfitt kvöld fyrir alla, sérstaklega dómaranna held ég , en það sem ég held að vinni að lokum er léttleikandi reiðmennska.

1. Árni Björn - Skíma
2. Bergur - Katla
3. Jakob - Gloría
4. Elín - Frami
5. Ásmundur Ernir - Spölur
6. Hinrik - Pistill
7. Guðmundur Björgvins - Straumur
8. Freyja Amble - Álfastjarna
9. Eyrún ýr - Hafrún
10. Sylvía - Héðinn-Skúli