laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gaddstaðaflatir og Vindheimamelar festast í sessi

20. desember 2011 kl. 10:15

Valur Ásmundsson, formaður Funa í Eyjafirði.

Eyfirðingar fá rothöggið

„Við erum náttúrlega alveg kjaftstopp. Þetta eru mikil vonbrigði og okkur finnst við órétti beitt,“ segir Valur Ásmundsson, formaður Funa í Eyjafirði um ákvörðun LH um að ýta Melgerðismelum í Eyjafirði út af Landsmótsborðinu.

En er ekki umsókn Funa frekar veik í ljósi þess að félagið, sem telur um 150 félagsmenn, stendur eitt að henni og hefur ekki loforð um fjárstuðning bæjaryfirvalda?

„Ef einhver vilji hefði verið fyrir því, sem ég held að sé víða, að halda Landsmót á Melgerðismelum þá var þetta rétti tíminn. Umsókn Funa er góð og gild og ekkert veik sem slík.  Auðvitað hefði verið sterkara ef öll félögin á svæðinu hefðu staðið að henni. En ég held að um leið og stjórn LH hefði sýnt vilja og áhuga til að ræða við okkur um Landsmót á Melgerðismelum, þá hefðu raðirnar þéttst, bæði hjá félögunum og bæjaryfirvöldum á Akureyri.

Það er ekki rétt að Akureyrarbær hafi neitað stuðningi við Landsmót á Melgerðismelum,“ segir Valur. „Það er svo stutt síðan að Léttir á Akureyri dró sína umsókn til baka að viðræður við bæjaryfirvöld voru einfaldlega ekki komin á rekspöl. Það er mikill hagur fyrir hvert byggðarlag að fá Landsmót og menn slá ekki hendinni á móti því í Eyjafirði frekar en annars staðar þegar á reynir.

Það sem er hins vegar alvarlegast í þessu er sú ákveðna stefna sem virðist felast í ákvörðuninni. Sem er að búið sé að ákveða tvo Landsmótsstaði, einn fyrir sunnan og einn fyrir norðan. Þar með er búið að drepa ákveðinn hvata í samkeppni, sem er mikilvægur fyrir mótahaldið. Ég er ekki viss um að þessi ákvörðun LH sé til heilla fyrir hestamennskuna í landinu í heild. Og tel raunar að svo sé ekki.

Með því að ganga fram hjá Melgerðismelum að þessu sinni er í raun verið að segja við Eyfirðinga: Þið fáið aldrei Landsmót! Sem er að mínu viti sorgleg niðurstaða. Melgerðismelar eru mjög gott svæði sem gefur Gaddstaðaflötum og Vindheimamelum ekkert eftir, nema síður sé. Það hefur mikil uppgræðsla átt sér stað, víða komin fimm metra há skjólbelti. Kynbótavöllurinn er frábær og að margra mati sá besti á landinu. Umhverfið er fagurt og ekki nema 20 mínútna akstur í höfuðstað Norðurlands. Það er að mínu viti afar misráðið að gefa þessu svæði ekki annað tækifæri,“ segir Valur Ásmundsson.