miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrstu vikurnar á húsi

22. desember 2016 kl. 14:00

.

Þessi dægrin eru margir að taka hestana sína inn á hús eða farnir að huga að því.

Í 9. tbl Eiðfaxa 2009 fer Trausti Þór Guðmundsson yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga fyrstu vikurnar eftir að hestarnir koma á hús. Við birtum hér þennan greinarstúf hestamönnum til gagns og áminningar:

Þegar hross eru tekin á hús breytast aðstæður þeirra algerlega. Þau losna undan áreiti hinna oft á tíðum ofsafengnu vetrarveðra og fá betra og meira fóður. Bögglarnir sem fylgja skammrifinu, ef svo má að orði komast, eru minni hreyfing og hærra higastig umhverfis.

Betra og meira fóður og að losna undan veðri er að sjálfsögðu mjög jákvæð breyting fyrir hrossin. Innistaðan er það hins vegar ekki og ekki heldur hið háa hitastig sem alla jafna er haft í hesthúsum hérlendis.

Rétt er að hafa í huga áðurnefndar breytingar á högum hrossanna er þau koma af hausthöfunum á hús. Aðlaga þarf þau breyttum aðstæðum eins og kostur er til að fyrirbyggja margvísleg vandamál sem ella geta komið upp.

Fóður fyrstu dagana

Fyrstu daga innistöðunnar er varasamt að fóðra of mikið. Sérstaklega eru hrossin viðkvæm fyrstu tvo til þrjá dagana og er rétt að gefa þeim ekki meira en þriðjung venjulegrar heygjafar fyrstu tvær gjafirnar, færa sig svo í hálfa gjöf næstu tvær og fara svo í gjöf sem tryggir viðhaldsfóður, þar til farið er að þjálfa, en þá má auka fóðurgjöfina smátt og smátt.

Viðhaldsfóður pr. dag er 3,5-4 fóðureiningar eða 5-6 kg af góðu heyi eftir þyngd hestsins (ca. 1,6 kg í fóðureininguna). Gjöfina skal skipta minnst í tvennt, eða morgungjöf 2 kg og kvöldgjöf 3-4 kg. Betra er þó að skipta fóðrinu niður í þrjár gjafir, morgungjöf 1,5-2 kg, hádegisgjöf 1-1,5 kg og kvöldgjöfin stærst 2,5-3 kg. Áríðandi er að hrossin hafi aðgang að salti og steinefnum með fóðrinu.

Aldrei á að líða dagur án þess að hrossin fari út. Jafnvel í illskuveðri er hressandi fyrir þau að fara út, þótt í stutta stund sé. Aðeins að hrista sig og velta sér, hlaupa einn hring og svo inn aftur. Það er betra en keki neitt. Hitt þarf þó að varast, en það er að skilja hross eftir úti í gerði of lengi. Dæmi eru um að fólk komi á góðviðrisdegi í hesthúsið um morguninn, áður en farið er til vinnu, og gleypi hrossunum út til þess að vera úti allan daginn. Hrossin verða bara leið og örg, fara að slást og verður jafnvel kalt.

Hin hefðbundnu verk

Þegar hrossin eru tekin á hús bíða manns alltaf þessi hefðbundnu verk, ormarhreinsun, járning, skoðun tanna og hugsanlega tannröspun og rakstur, alla vega undan faxi og kannski meira sem fer til dæmis eftir því hversu hlýtt hesthúsið er og hve mikið á að þjálfa.

Það færist í vöxt að fólk vilji albaða hross nýkomin inn. Feldurinn er fullur af óhreinindum sem rok og umhleypingar hafa lamið inn í hann og má vel færa fyrir því rök að gott og rækilegt sápubað geri hrossunum gott. Hafa verður þó í huga að við það fjarlægjum við að einhverju leyti fituna úr feldinum þannig að passa þarf upp á að hrossin verði ekki köld úti í gerði á blautum degi.