fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrsti prófessorinn í reiðmennsku á íslenskum hestum

28. ágúst 2019 kl. 16:52

Eyjólfur Ísólfsson sést á myndinni ríða æfinguna Sveigður/beint á tölti.

Eyjólfur Ísólfsson hefur verið ráðinn sem prófessor við SLU

Eyjólf Ísólfsson þarf vart að kynna fyrir hestamönnum. Hann var lengi lektor og kennari við Háskólann á Hólum í Hjaltadal. Hann er einn af Tamningameisturum FT og er mikill áhrifavaldur innan íslandshestaheimsins. Ófáir nemendur hafa fengið leiðsögn og kennslu hjá Eyjólfi í gegnum tíðina.

Eyjólfur hefur nú verið ráðinn sem Prófessor við sænska landbúnaðarháskólann. Þar með slæst hann í hóp með ekki ómerkara fólki en Kyru Kyrklund og Jan Jonsson sem bæði eru hátt skrifuð sem reiðkennarar og reiðmenn á alheimsvísu og starfa við skólann.

Í frétt frá SLU segir að með þessu vilji háskólinn styrkja reiðmennsku á íslenskum hestum en það er sú grein í hestamennskunni í Svíþjóð sem hefur stækkað hvað mest á undanförnum árum. Í dag eru um það bil 30.000 íslenskir hestar í Svíþjóð sem gerir hann að þriðja stærsta hestakyninu þar í landi.

Í samtali við Eyjólf Ísólfsson segir hann að þetta sé mikill áfangi fyrir okkar reiðmennsku og ómetanlegt að einn fremsti háskóli í heimi viðurkenni okkar reiðmennsku sem reiðlist.