mánudagur, 11. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrsta tölublað Eiðfaxa

17. febrúar 2012 kl. 16:39

Fyrsta tölublað Eiðfaxa

Fyrsta tölublað Eiðfaxa leit dagsins ljós í júlí 1977 og er því að sigla inn á sitt 35. starfsár.

Tilgangur útgáfunnar var að flytja fregnir af því sem gerðist á sviði hestamennsku, en fjölmiðar þóttu heldur tregir við fréttaflutning af málefnum íslenska hestsins. „Ég hafði baslað við það í nokkur ár að  koma hestamennsku í blöðin, en það gekk misjafnlega. Hestamenn tóku umræðunni ágætlega en ritnefndir blaðanna voru ekki mjög hrifnar af þessu, fengu bara lykt af hrossaskít í nasirnar. Okkur þótti ástæða til þess að stofna sérstakt fréttablað um hestinn og úr varð Eiðfaxi,“ sagði Sigurjón Valdimarson, einn af stofnendum Eiðfaxa og fyrsti ritstjóri tímaritsins í viðtali við blaðið er hann varð áttræður í byrjun árs. Hann stofnaði málgagnið í félagi við Pétur Pehrens, Gísla B. Björnsson, Sigurð Haraldsson, Árna Þórðarson, Sigurbjörn Bárðarson og Þorvald Árnason.

Fyrsta tölublaðið er fallegt 16 blaðsíðna merkileg heimild um það sem hæst bar á góma það herrans ár 1977. Meðal efnis er grein frá fjórðungsmóti austfirskra hestamanna á Fornustekkum sem haldið var í vitlausu veðri . Greinarhöfundur furðar sig á skorti á góðum kynbótahrossum þar eystra og slæmum dómum í gæðingakeppninni. Reynir Aðalsteinsson fór mikinn á Borgfjörð sínum frá Hvanneyri og fékk hæstu einkunn stóðhesta á móti í Faxaborg. Þá er spurt hvort fjögra vetra foli geti kallast gæðingur og erlendar hestabókmenntir eru kynntar til leiks. Það er ekki síður gaman að skoða smáauglýsingarnar og kíkja hvaða stóðhestar voru í notkun það herrans ár 1977.

Þetta merkisblað getið þið, kæru lesendur, gluggað, því það má nálgast hér og hægra megin á forsíðunni.