miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrsta skrefið í átt að fullu framhaldsskólanámi í Hestafræði

18. október 2011 kl. 15:32

Fyrsta skrefið í átt að fullu framhaldsskólanámi í Hestafræði

Í haust stúdera tólf nemendur Framhaldsskólans í Mosfellsbæ hestamennsku sem hluti af starfsnámi sínu við Íþrótta og lýðheilsubraut skólans. Hestamennska er kennd í fjóra tíma á viku, sem skipt er í verklegt og bóklegt nám og sjá reiðkennarar á vegum hestamannafélagsins Harðar alfarið um kennsluna, auk þess sem félagið útvegar nemendum kennsluhross og hýsir námskeiðið á félagssvæði sínu.

Þetta námskeið er fyrsta skrefið í átt að stærra markmiði, því stefnt er að því að á næsta ári standi nemandum til boða að nema fullt nám við Hestafræðibraut FMOS.

Námið verður byggt upp eins og flestar iðngreinar framhaldsskólanna. Þannig munu nemendur að námi loknu útskrifast með réttindi, hliðstæðu sveinsprófi, til að stunda frumtamningar, járningar og vera leiðbeinendur og aðstoðarmenn reiðkennara. Námið mun gefa 70 einingar til stúdentsprófs og geta þeir sem stefna á nám við Hóla, lokið formlegu stúdentsprófi á brautinni  og er nú verið að vinna að gerð námsgagna í samstarfi við Félag tamningamanna og Háskólans á Hólum.

Kennslan mun að miklu leyti fara fram á félagssvæði Harðar, sem nú stendur frammi fyrir því að bæta húsakost sinn. Unnið er að gerð deiliskipulags svæðisins þar sem m.a. er gert ráð fyrir nemendahesthúsi við reiðhöllina auk tveggja minni kennslureiðhalla.