mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrsta mót Meistaradeildar VÍS

Jens Einarsson
28. janúar 2010 kl. 23:10

Árni Björn Pálsson bestur í Smala

Hinn ungi og snarpi keppnismaður Árni Björn Pálsson á Korku frá Steinnesi bar sigur úr býtum í Smala, fyrstu keppni Meistaradeildar VÍS 2010, sem haldin var í Ölfushöllinni í kvöld. Hann fékk 256 stig í úrslitunum en næsti keppandi, Sigurður Sigurðarson á Reyk frá Minni-Borg hlaut 244. Ragnar Tómasson jr. á Heklu frá Selfossi varð í þriðja sæti með 240 stig. Þess má geta að Árni Björn var knapi á efsta alhliða gæðingnum á Landsmóti hestamanna 2008, Aris frá Akureyri.

Ölfushöllin var nær fullsetin og greinilegt að fólk kann að meta þessa þjóðlegu keppnisgrein, sem er í raun gamalt vín á nýjum belg. Greinin byggir á lipurð, jafnvægi og snerpu, þar sem reynir virkilega á samspil manns og hests. Eins og keppnisgreinin er byggð upp núna gildir hraðinn einna mest. Margir hallast hins vegar að því að þjálni og lipurð eigi að vega meira. Og refsa eigi meira fyrir felldar keilur og önnur mistök.

Áberandi var að þessu sinni hve margir knapar lögðu mikið upp úr lipurð og mjúkri reiðmennsku, fremur en hraðanum. Jafnvel þótt það væri ávísun á færri stig. Má þar nefna kvenknapana þrjá í liði Auðsholtshjáleigu, Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur, Bylgju Gauksdóttur og Artemisu Bertus. Einnig Hinrik Bragason og Lenu Zielinski. Í þessu felast ákveðin skilaboð til mótshaldara. Margir knapar vilja bersýnilega endurskoða keppnisreglurnar.

Smalinn er vinsælli hjá áhorfendum en knöpum í Meistarardeildinni. Margir þeirra líta meira á þessa grein sem leikjakeppni fyrir hinn almenna hestamann. En þó eru nokkrir knapar sem hafa mjög gaman að Smalanum og vilja halda honum áfram inni í mótaröðinni og þróa hann frekar. Enginn vafi er á því að ef knapar kæmu með undirbúna og þjálfaða hesta með gott upplag fyrir þessa keppnisgrein, þá yrði hún ennþá skemmtilegri, bæði fyrir knapa og áhorfendur.

Úrslit í Smala:

1 Árni Björn Pálsson, Lífland, Korka frá Steinnesi 256 2 Sigurður Sigurðarson, Lýsi, Reykur frá Minni-Borg 244 3 Ragnar Tómasson, Lífland, Hekla frá Selfossi 240 4 Eyjólfur Þorsteinsson, Málning, Bróðir frá Stekkjardal 232 5 Jakob S. Sigurðsson, Frumherji, Blær frá Akranesi 224 6 Sigurður V. Matthíasson, Málning, Gyðja frá Kaðlastöðum 216 7 Artemisia Bertus, Auðsholtshjáleiga, Grýta frá Garðabæ 210 8 Valdimar Bergstað, Málning, Stúfur frá Miðkoti 208 9 Hulda Gústafsdóttir, Árbakki / Hestvit, Saga frá Lynghaga 172 10 Sigurbjörn Bárðarson, Lífland, Bjarki frá Sunnuhvoli 164