laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fundað um áverka í munni keppnishesta

20. október 2011 kl. 13:11

Mynd/US

Fundað um áverka í munni keppnishesta

Á haustfundi Hrossaræktarsambands Suðurlands sem haldinn var á Selfossi í gærkvöldi sagði Guðlaugur Antonsson frá niðurstöðum heilbrigðisskoðunnar keppnishesta á Landsmóti í sumar.  Guðlaugur sagði m.a. að skoðunin hefði leitt í ljós beinhimnubólgu á kjálkabeininu á tannlausa bilinu í einhverjum tilfellum og að þeir áverkar tengist notkun stangaméla með tunguboga. 

 
Í dag mun Sigríður Björnsdóttir dýralæknir funda með stjórnum samtaka hestamennskunnar um niðurstöðurnar.
Eiðfaxi hafði samband við Sigríði vegna þessa.
 
Hún staðfestir að heilbrigðisskoðunin hafi leitt í ljós að særindi í munni væru síst á undanhaldi. Nú hefði í fyrsta sinn verið leitað skipulega að áverkum á kjálkabeini og því miður væri þar of mikið að finna og þeir áverkar væru hrein viðbót við særindi í kinnum og munnvikum. Þessir áverkar eru auk þess alvarlegri út frá dýravelferðarsjónarmiði og því sérstaklega mikilvægt að finna leiðir til að koma í veg fyrir þá í framtíðinni. Knapar voru allajafna ekki meðvitaðir um áverkana og því blasir við að mikil þörf er á fræðslu á þessu sviði.
 
LH og MAST standa að heilbrigðisskoðunum keppnishesta á stórmótum undir heitinu „Klár í keppni“.  Markmiðið er að tryggja að aðeins heilbrigðir hestar og vel þjálfaðir komi til keppni.