mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frumtamningakennsla á Hólaskóla

Jens Einarsson
28. október 2009 kl. 11:08

Þróunarvinna sem hefur skilað árangri

Ísólfur Líndal Þórisson, tamninga- og reiðkennari á Hólaskóla, verður með sýnikennslu í frumtamningum í reiðhöll skólans í kvöld, miðvikudaginn 28. október. Eins og kunnugt er hefur mikil áhersla verið lögð á þróun frumtamningaaðferða í kennslu hrossabrautarinnar á Hólum. Að flestra mati hefur það tekist vel. Má í því sambandi nefna vel heppnaða sýningu skólans í Svaðastaðahöllinni síðastliðið vor, þar sem haldin var sérstök keppni í frumtamningum.

Hægt að stytta tamningatímann

Ísólfur segir að þau atriði sem hann muni sýna í kvöld séu flest tengd og í beinu framhaldi af þeim vinnuaðferðum sem í þróun hafa verið á skólanum undanfarin ár.

„Við höfum til dæmis verið að þróa tamningamúlinn sem hefur verið notaður hér við kennsluna í allnokkur ár. Við höfum endurbætt hann í þeim tilgangi að flutningurinn frá taumátaki frá nefbeini og yfir í mél sé auðskyljanlegri og meðtækilegri fyrir hrossið. Einnig mun ég fara yfir aðferðir þar sem unnið er með trippi laus í hringgerði, en þar höfum við einnig verið að fikra okkur áfram. Ég mun líka fara í aðferðir sem miða að því að venja trippin við óvænta og hreifanlega hluti í umhverfinu. Það hefur komið í ljós að það er hægt að venja trippin og spekja á skemmri tíma en menn hafa átt að venjast. Með réttum aðferðum má stytta tamningatímann til muna,“ segir Ísólfur Líndal Þórisson.