þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frostþolnir stóðhestar verðmætir

1. desember 2009 kl. 11:05

Áhugi fyrir sæðingum á meginlandinu fer vaxandi

Stóðhestar með frostþolið sæði gætu orðið verðmætir í framtíðinni. Draumur þeirra sem hlynntir eru tæknifrjóvgunum hjá hrossum er að geta fryst sæði úr stóðhestum, geymt það í lengri eða skemmri tíma, og sætt hryssur um víða veröld eftir hentugleikum. Jafnvel eftir að hestarnir eru löngu dauðir.

Áhugi fyrir hrossasæðingum í íslenska hrossakyninu fer vaxandi á meginlandinu. Sæðingastöðvar í eigu einkaaðila, sem ekki eru dýralæknar, skjóta upp kollinum og má þar nefna Stenholmen í Svíþjóð. Dæmi eru einnig um að gerðir séu út sérstakir sæðisbílar, sem aka á milli hrossabúa og taka sæði úr stóðhestum, til kælingar eða frystingar.

Góður árangur hefur náðst í fersksæðingum á staðnum. Það er að segja á sæðingastöðvum þar sem stóðhestarnir og hryssurnar eru á sama stað. Sæðið er tekið úr hestunum og hryssurnar sæddar innan nokkurra klukkustunda. Ávinningurinn er að fleiri skammtar fást úr hverjum stóðhesti. Fleiri hryssur geta fengið við honum heldur en með „gamla“ laginu.

Þokkalegur árangur hefur einnig náðst með kælt sæði. Hægt er að senda það langar vegalengdir með bíl eða flugi og sæða með því í einn til þrjá sólarhringa eftir að það var tekið úr hestinu. Árangur með fryst sæði er hins vegar ekki eins góður. Vandamálið er að sæði stóðhesta þolir afar misjafnlega frystingu. Í fleiri tilfellum en færri drepst sæðið í frostinu og því óhæft til sæðinga. Sæði sumra hesta lifir þó frostið af og er þá sæðingin sjálf jafn einföld og með fersku sæði. Það er því ljóst að slíkir kappar geta orðið verðmætir ef fram vindur sem horfir.

Þess má geta að heiðursverðlauna stóðhesturinn Keilir frá Miðsitju er nú kominn til Hollands þar sem hann er í undirbúningsferli fyrir sæðistöku. Fyrirhugað er að frysta sæði úr Keili, en hann verður einnig í fersksæðingum í vor. Spennandi verður að sjá hvort sæði hans þolir frost.