miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frönsk reiðlist er viðurkenndur heimsmenningararfur

13. janúar 2012 kl. 15:28

Frönsk reiðlist er viðurkenndur heimsmenningararfur

Á ráðstefnu Menningarstofnunnar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, á Bali fyrir í lok nóvember hlaut frönsk reiðlist þá merku viðurkenningu að vera heimsmenningararfur.  Í rökum valnefndarinnar kemur m.a. fram að frönsk reiðlist leggi sérstaklega mikla áherslu á samstilingu manns og hests þar sem virðing fyrir hestinum, andlegum og líkamlegum þörfum hans, er höfð að leiðarljósi. 

Þetta var stór áfangi fyrir Franska reiðskólann í Saumur (ENE Ecole Nationale d' Equitation) sem lítur á þetta ekki síst sem viðurkenningu fyrir knapa og þjálfara í hins virtu stofnunnar Cadre Noir og því starfi sem þar er unnið við að viðhalda þessum menningararfi og miðla honum til komandi kynslóða.

Hefð franskrar reiðlistar byggir á nákvæmri samstillingu milli manns og hests. Grunnáherslurnar í tamningu og þjálfun hestsins eru annars vegar höfnun valds og þvingunar og hins vegar virðing fyrir andlegu og líkamlegu ástandi hestsins. Hreyfanleiki liðamótanna og flæði hreyfinganna er forsenda þess að hesturinn taki þátt í hinum mismunandi æfingum af frjálsum vilja. Með gagnkvæmri virðingu skapast náið samband milli knapa og hests, þá er lagt áhersla á að ná fram léttleika - „légèreté“ á frönsku.

Opinberar sýningar og viðburðir er mikilvægur liður í starfsemi Cadre Noir við Franska reiðskólann í Saumur  til að tryggja að hefðir franskrar reiðlistar verði áfram sýnilegar. Í Saumur er einnig miðstöð fyrir reiðkennara, ræktendur, handverksmenn svo sem söðlasmiði og skósmiði, dýralækna  og járningamenn.

Friðun UNESCO á franskri reiðlist á heimsminjaskrá hefur mikla þýðingu fyrir  framtíð hennar og mun að líkindum hafa fjölbreytileg áhrif á reiðlist heimsins í dag. Margir íslenskir reiðkennarar hafa kynnt sér og notað aðferðir úr franskri reiðmennsku og má þar til dæmis nefna Eyjólf Ísólfsson og Reyni Aðalsteinsson.

Alls hafa 232 menningarfyrirbæri ratað á þennan virta heimsmenningarskrá UNESCO sem er sambærilegur við Heimsminjaskrá stofnunarinnar sem margir þekkja eflaust til. Tilgangur skrárinnar er að varðveita menningararfs mannkynsins. Merkilegt nokk!

Í 1. tbl. Eiðfaxa árið 2012 verður rætt við nokkra valinkunna þjálfara um áhrif hinnar frönsku reiðlistar á reiðmennsku hérlendis.