sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fróðlegur fræðslufundur um ræktun í Kirkjubæ

17. febrúar 2011 kl. 00:16

Fróðlegur fræðslufundur um ræktun í Kirkjubæ

Eiðfaxi sat stórskemmtilegan fræðslufyrirlestur Ágústar Sigurðssonar á Kirkjubæ í félagsheimili Sörlamanna í Hafnafirði í kvöld. Á þriðja tug áhugamanna komu til að hlýða á Ágúst, þar á meðal dætur Stefáns Jónssonar, eins af upphafsmönnum Kirkjubæjarræktunarinnar.

Ágúst, sem er rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og hrossaræktandi á Kirkjubæ, fór í fróðlegu máli yfir sögu Kirkjubæjar, en það er með fyrstu búum á Íslandi sem byggir algerlega á hrossarækt.

Rauðblesótt hross eru helsta einkenni Kirkjubæjarræktunar, ræktunin byggir að á fríðleikahryssum og ættbogum sem koma undan þrem dætrum skagfirsku merarinnar Stygg frá Svaðastöðum (Sörladóttur 71) - sem var í flokki rúmlega 40 hrossa sem bræðurnir Eggert og Stefán Jónsson keyptu til Kirkjubæjar frá Skagafirði þegar þeir hófu hrossarækt þar.

Ágúst sýndi myndir af alþekktum og minna kunnum Kirkjubæjarhrossum og greindi frá því hvernig ræktun hrossana hafi þróast án þess að tapa því sem hann teldi mikilvægustu einkenni Kirkjubæjarhrossanna; hálsgerð, samræmi, prúðleiki og fríðleiki. Fram kom í máli Ágústar að hann hugnist ekki vægisbreytingar í kynbótadómum og hann fylgdi eigin sýn og stefnu þegar kæmi að ræktun og vali á kynbótahrossum til undaneldis. Ágúst sagði að íslenski hesturinn væri mesta verðmæti þjóðarinnar. Markmið fjölskyldu hans væri fyrst og fremst að njóta samvistar við hestinn og rækta góð hross.

Kirkjubær er óneitanlega eitt farsælasta hrossaræktarbú á Íslandi, enda byggja mörg nýrri bú á merum úr Kirkjubæjarræktuninni. Ágúst beindi sjónum sínum að framtíðinni og þau hross sem standa frammi fyrir því að halda uppi nafni þessa sögufræga hrossaræktarbús.

Meira verður birt fræðslufund Ágústar Sigurðssonar og Kirkjubæjarhrossin á sunnudag.