þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fróðlegt námskeið Járningamannafélagsins

28. október 2011 kl. 21:32

Fróðlegt námskeið Járningamannafélagsins

Járningamannafélag Íslands er vaxandi félagsskapur járningamanna á Íslandi. Í dag eru félagar þess orðnir liðlega 80 talsins en allir sem áhuga hafa á járningum geta orðið félagar...

„Ekki er enn komið að því að menn þurfi að sanna hæfni sína til að fá inngöngu í félagið. Megin markmið félagsins er að auka menntun og þekkingu á járningum.“ sagði Sigurður Torfi formaður Járningamannafélags Íslands. Félagið stendur fyrir Íslandsmóti í járningum á morgun, laugardaginn 28. október og fer það fram að Mið-Fossum í Borgarfirði. Í tengslum við það var haldið námskeið og aðalfundur félagsins að Hvanneyri í dag eða á föstudeginum. Kennari á námskeiðinu var þekktur fræðimaður og járningamaður frá Bandaríkjunum  Mitch Taylor.
Fór hann vel yfir uppruna hestsins, hvernig hann hefur þróast sem dýr, og anatomiuna, áhrif landslags og jarðvegs á hvernig hófurinn hefur þróast. Síðan framkvæmdi hann krufningu á hests fæti, sem hann hafði áður flegið. Tók hann fótinn í sundur sin, fyrir sin og hluta fyrir hluta og útskýrði mjög vel hlutverk hvers hluta fyrir sig. Krufningunni var varpað upp á skjá með vídeó upptökuvél þannig að ekkert fór framhjá neinum þeirra sem voru á námskeiðinu.
Seinni hluti fyrirlesturs Mitch fjallaði um vaxandi vandamál í hestaheiminum, hófsperru. Fjallaði hann um orsök sjúkdómsins og hvernig má bregðast við, bæði með járningu og annarri umhirðu.
Námskeiðið var vel sótt og sýndi fólk mikinn áhuga á fyrirlestrinum og kennslunni.
Fyrirlesturinn í heild sinni var mjög góður en hefði þó orðið gagnlegri hefði dýralæknir þýtt það sem sagt var, því að eitthvað af orðum sem notuð voru eru faglegt mál sem ekki allir íslenskir járningamenn skilja. Farið var ansi djúpt í byggingu fótar og hófs og í lokin hélt hann á hófbeininu strípuðu. Margir aðrir en járningamenn hefðu haft gagn af því að hlíða á þennan fyrirlestur, til dæmis hefðu allir atvinnu þjálfarar og tamningamenn haft gagn af því.
Er það ánægjulegt að verða vitni að þeim mikla áhuga og metnaði sem þetta starf Járningamanna félagsins endurspeglar.