miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fróði og Siggi sigruðu A-flokk

1. júlí 2012 kl. 14:59

Fróði og Siggi sigruðu A-flokk

Fáir bjuggust við því en Fróði frá Staðargungu og Sigurður Sigurðarson sigruðu stórkostlegum lokaúrslitum þessa glæsilega landsmóts. Aðeins örfáar kommur skildu að þá flottu gæðinga sem tóku þátt í A-úrslitunum.

Sýning á tölti var jöfn, enda hlutu þrír hestar sömu einkunn. Hæstur var þó Fláki frá Blesastöðum 1A sem fékk 8,92 og voru áhorfendur heyranlega á sama máli og dómarar því þeir fögnuðu einkunn hans. Knapi Fláka var Þórður Þorgeirsson og voru þeir félagar taldir sigurstranglegir, enda efstir inn í úrslit.

Gæðingarnir voru nokkuð jafnir á brokki, Stakkur frá Halldórsstöðum var í stuði hjá Sigurbjörni Bárðarsyni og hlutu hæstu einkunn keppenda 8,78 á meðan Fláki hlaut lægstu einkunn 8,50. Fláki og Stakkur brokkuðu samhliða og var greinilega nokkur keppni á milli þeirra.

Mikil spenna lá í loftinu þegar gæðingarnir þeystu tvo spretti á skeiði, landsmótsgestir fögnuðu ákaft góðum sprettum. Þar var Lotta frá Hellu í nokkru uppáhaldi hjá áhorfendum, skeiðaði hún taktfast og örugglega og hlaut 9,12 í einkunn fyrir vikið. Luku þau keppni í fjórða sæti, sem er glæsilegur árangur eftir að hafa komið inn úr B-úrslitum í gær.

Sigurður Sigurðarson fór mikinn á Fróða frá Staðartungu og hefur Siggi ekki látið "tapið" í B-flokki hafa áhrif á keppnisgleði sína. Hlutu þeir glæsilega 8,82 fyrir tölt og uppskáru 9,16 fyrir glæsispretti á skeiði hæstir allra keppenda.

Þegar allar tölur fyrir gangtegundir, vilja og fegurð í reið höfðu verið lesnar upp varð niðurstæðan, nokkuð óvænt, sú að Fróði og Sigurður höfðu sigurorð af verðugum keppinautum, með aðeins brotamun.

Keppandi/ tölt/brokk/skeið/vilji/fegurð í reið/lokaeinkunn

1. Fróði frá Staðartungu og Sigurður Sigurðarson: 8,82 - 8,60 - 9,16 - 9,00 - 8,96 = 8,92
2. Fláki frá Blesastöðum 1A og Þórður Þorgeirsson: 8,92 - 8,50 - 8,92 - 8,84 - 9,02 = 8,88
3. Stakkur frá Halldórsstöðum og Sigurbjörn Bárðarson: 8,62 - 8,78 - 9,08 - 8,98 - 8,78 = 8,86
4. Lotta frá Hellu og Hans Þór Hilmarsson: 8,54 - 8,60 - 9,12 - 8,90 - 8,64 = 8,78
5. Grunnur frá Grund II og Sigursteinn Sumarliðason: 8,62 -8,76 - 8,78 - 8,72 - 8,80 = 8,73
6. Hringur frá Fossi og Sigurður Vignir Matthíasson: 8,64 - 8,70 - 8,80 - 8,72 - 8,70 =8,71
7. Hnokki frá Þúfum og Mette Mannseth: 8,56 - 8,64 - 8,54 - 8,56 - 8,58 = 8,57
8. Sálmur frá Halakoti og Atli Guðmundsson: 8,62 - 8,30 - 8,42 - 8,46 -8,46 = 8,47

Núna kl. 15.30 fara fram pallborðsumræður í reiðhöll, þar sem allir sigurvegarar landsmótsins munu sitja fyrir svörum.