sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fróði frá Staðartungu bestur alhliða gæðinga

1. júlí 2012 kl. 16:07

Fróði frá Staðartungu er bestur alhliða gæðinga á LM2012 í Reykjavík. Knapi er hinn mikli keppnismaður Sigurður Sigurðarson.

Sigurður SIgurðarson, knapi og hrossabóndi á Þjóðólfshaga reið hestinum af ákefð og öryggi. Hann vann B flokk gæðinga á LM2011.

Fróði frá Staðartungu er bestur alhliða gæðinga á LM2012. Hann kom þriðji inn í úrslit á eftir Fláka frá Blesastöðum 1a og Stakki frá Halldórsstöðum, sem báðir eru miklir gæðingar með frábærar gangtegundir. Flestir spáðu öðrum hvorum þeirra sigri.

En Sigurður Sigurðarson er engum líkur og hefur aldrei svo vitað sé gefist upp í miðju verkefni. Hann magnast eftir því sem brekkan er brattari. Fróði er íslenskur gæðingur af bestu sort; vilji og mýkt eins og best er hægt að hugsa sér, töltið frábært. Þeir félagar áttu góðan dag, höfðu allt að vinna og höfðu fasið og öryggið umfram keppinautana, sem voru ekki eins djarflegir. Sigurður reið Fróða af þeirri ákefð og því öryggi sem einkennir þennan mikla afreksknapa. Minna má á að Sigurðu vann B flokkinn á LM2011 á Vindheimamelum á Kjarnorku frá Kálfholti.

Í rauninni er varla hægt að gera upp á milli þessara hesta. Jafnvel allra þeirra sem þátt tóku í úrslitunum. Þetta er frekar spurning um hver á góðan dag, eða góða viku, í það og það skiptið. Þó verð ég að segja að „gamla skeiðið“ hans Stakks fellur best að mínum smekk, teygjumikið, skrefmikið og takthreint. Hann fékk þó ekki hæstu einkunn hjá dómurum fyrir það, sem segir mér að ég er sennilega mjög gamaldags. Er ég þó alls ekki að gera lítið úr vekurð þeirra Fláka og Fróða, sem eru óumdeildir topp gæðingar og hafa margsannað sig sem slíkir.

Úrslitin í A flokki á LM2012 er einhver sú besta skemmtun sem undirritaður hefur upplitað á Landsmóti síðan 1978. Sextán heilir skeiðsprettir, jafngóðir úrvals gæðingar, góð reiðmennska. Þetta var góður endir á vel heppnuðu Landsmóti. Vissulega hefði verið gaman að fá einn sólardaginn í viðbót, en þótt aðeins dropaði úr lofti var veðrið gott, hlýtt og milt.

Landsmót hestamanna í Reykjavík heppnaðist vel. Svæðið er gott og fallegt og það náðist upp hátíðarstemmning sem allir sækjast eftir að upplifa á Landsmóti. Fáksmenn geta verið stoltir af sínum hlut. Engir stórir hnökrar voru á framkvæmdinni og engin veruleg óhöpp urðu á mönnum og hestum. Segjum þetta gott í bili. Með kveðju fá ritstjóra JE.

A-flokkur gæðinga - úrslit
              
1 Fróði frá Staðartungu / Sigurður Sigurðarson 8,94         
2 Fláki frá Blesastöðum 1A / Þórður Þorgeirsson 8,88         
3 Stakkur frá Halldórsstöðum / Sigurbjörn Bárðarson 8,86         
4 Lotta frá Hellu / Hans Þór Hilmarsson 8,78         
5 Grunnur frá Grund II / Sigursteinn Sumarliðason 8,73         
6 Hringur frá Fossi / Sigurður Vignir Matthíasson 8,71         
7 Hnokki frá Þúfum / Mette Mannseth 8,57         
8 Sálmur frá Halakoti / Atli Guðmundsson 8,47