mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frjálsir um fætur

26. apríl 2011 kl. 09:35

Magnús Benediktsson er einn aðal reiðhallasýninga-mógúll landsins um þessar mundir.

Engin fótaskoðun á ræktunarsýningum

Þrjár stóðhestasýningar, og nokkrar aðrar ræktunarsýningar, svo sem Orrasýningin og Ræktun 2011 í Ölfushöll, hafa verið haldnar í vetur. Á hinum "almennu" ræktunarsýningum koma fram bæði kynbótahross og geldingar, en nær eingöngu stóðhestar á hinum eiginlegu stóðhestasýningum. Sumir þó með nokkrum afkvæmum.

Eftir því sem næst verður komist eru engar reglur um járningar og annan fótabúnað hrossa á þessum sýningum. Þær eru í raun frjálsar. Magnús Benediktsson, sem er höfundur Stóðhestaveislunnar, sem haldin var bæði í Ölfushöll og í Svaðastaðahöllinni í á Sauðárkróki, og umsjónarmaður á Ræktun 2011, segir að engin sérstök fótaskoðun hafi farið fram á þeim sýningum.

„Það eru fagmenn sem sýna hrossin á þessum sýningum. Knaparnir eru þaulvanir að sýna hross við þessar aðstæður og vita sem er að of mikil vigt á framfótum er í flestum tilfellum til trafala og skemmir oftar fyrir en ekki. Það er hins vegar yfirleitt meiri stemmning á sýningum innan dyra en á útisýningum. Knaparnir smitast af þeirri stemmningu og ríða oft af meiri "töffaraskap", ef svo má að orði komast. En þú nærð ekkert flottari sýningu á hesti á reiðhallarsýningu með því að vera með einhverja yfirvigt á honum,“ segir Magnús, sem nú undirbýr Stórsýningu Fáks í Reiðhöllinni í Víðidal á laugardaginn.