mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fréttaflutningur til framdráttar?

28. mars 2011 kl. 16:06

Fréttaflutningur til framdráttar?

„Vissulega er hægt að eyða miklu í hestamennsku. Hér sit ég á hrossi sem er búið öllu því besta. Sexhundruðþúsund króna hnakkur. Hundrað og tuttugu í annan útbúnað. Og hesturinn Glói, hann er ekki ódýr. Hann kostar milljón.“ (Þórhildur Ólafsdóttir, kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins, 23. mars 2011)

Svo hljóðandi var brot úr kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins  þann 23. mars sl. Í frétt var þetta dæmi tekið til að sýna hækkandi kostnað við hestamennsku og talað var við Andreu Margréti Þorvaldsdóttur formann hestamannafélagsins Léttis sem hélt því fram að afleiðingar hækkandi kostnaðar væri fækkun og lítil nýliðun í íþróttagreininni.

Eiðfaxi harmar þennan illa ígrundaða fréttaflutning  og þátttöku formanns hestamannafélags í honum og veltir því fyrir sér hver tilgangurinn með fréttinni hafi verið. Til hverra er verið að höfða? Hver voru skilaboðin sem þessi frétt átti að miðla?

Sexhundruðþúsund?

Í lítilli verðkönnun sem Eiðfaxi gerði á hnökkum í hestavöruverslunum í Reykjavík og á Akureyri, fann hann engan hnakk sem kostaði 600.000 kr. Þegar starfsmenn verslananna voru spurðir hvort þeir vissu um slíka hnakka til sölu, datt þeim aðeins einn hnakkur í hug en sá kostar 469.999 krónur. Ef miðla ætti frétt um hækkandi verð á bílum, myndi það skjóta skökku við ef fréttamaður tæki dæmi um dýrustu gerð af Porsce og Benz til að rökstyðja mál sitt án þess að segja jafnframt frá því að aðrir og ódýrari kostir væru í boði.

Við skulum því leiðrétta þennan fréttaflutning: Hnakkar fást í mörgum gerðum og gæðum. Í óformlegri verðkönnun komst Eiðfaxi að því að verð á nýjum hnökkum er afar fjölbreytt, frá 54.000 kr. að fyrrnefndum 469.999 kr. Algengasta verð fyrir gæða hnakka var á bilinu 160.000-339.000 kr. Notaða hnakka er hægt að fá mun ódýrara.

Þótt hesturinn Glói hafi verið á milljón, þá má líka finna vel taminn og þægan reiðhest á minna en helming þeirrar upphæðar. Verðbil  á reiðtygjum, reiðfatnaði og öðrum útbúnaði fyrir hestamennskuna er líka ansi stórt og gefur eitt dæmi af því besta ekki raunhæfa mynd á kostnaði við hestamennsku. 

Fækkun?

Eiðfaxi sér ekki hvernig meintar verðhækkanir hafi haft þær afleiðingar að fækkun hafi orðið í greininni. Viðburðir í tengslum við hestamennsku hafa verið óhemju margir í vetur. Í hverri viku eru mörg mót og á flest hver eru metskráningar. Á töltmóti á Hvammstanga um daginn spreyttu 200 þáttakendur sig á keppnisbrautinni, á ísmótinu „Svellkaldar konur“ komust aðeins 100 keppendur að en margar konur þurftu að sætta sig við að vera á biðlista. Um 800 manns mættu á afmælishátíð FT í febrúar og svipaður fjöldi var mættur á „Orra í 25 ár“ um helgina. Mikið framboð er á sýnikennslum, fjölsótt hefur verið á fræðslukvöld og aldrei hafa jafn margir sótt knapamerkjanámskeið. 

Eiðfaxi sér einfaldlega ekki þá ládeyðu í hestamennskunni í vetur sem fréttaflutningurinn gaf til kynna.

Það sem ekki er nefnt

Eiðfaxa þykir undarlegt að manneskja, sem er formaður hestamannafélags í höfuðborg Norðurlands og á sæti í stjórn Landssambands Hestamannafélaga skuli hafa leyft fréttamanni RÚV að birta fréttina með þeim hætti sem gert var. Það hlýtur að vera áhugamál allra hestamannafélaga, hvar á landinu sem er, að auka veg hestamennskunnar. Ætla mætti að fólk í framvarðasveit hestamennskunnar reyndi að stuðla að aukningu innan greinarinnar í stað þess að koma fram með málflutning sem fær alla þá, sem eru að hugsa um hestamennsku sem vænlegan kost, til að snarhætta við.  Með fréttinni var verið að bægja fólki frá því að svo mikið sem íhuga hestamennskuna sem kost fyrir fjölskylduna.

Á meðan það má að sjálfsögðu rökræða kostnað í kringum hestamennsku og færa rök fyrir því að þessi þjóðaríþrótt sé því miður ekki á færi allra, sé ætlunin að iðka hana á hæsta plani, má ekki gleymast í þeirri umræðu hvað hestamennskan gefur mikið af sér. Því hestamennska er ekki bara dýrt sport, hestamennska er þroskandi og lærdómsrík og hún hefur forvarnargildi, bætir sjálfstraust, byggir upp ábyrgðartilfinningu, hún er heilsubót og sameinar fjölskylduna.

Í aðdraganda að einni stærstu nýju kynningu á íslenska hestinum, Hestadögum í Reykjavík, svíður Eiðfaxa við að sjá hvernig farið er með umræðu um hestamennsku.