þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frávísanir úr kynbótadómi

19. júlí 2010 kl. 12:05

Frávísanir úr kynbótadómi

Eitthvað var um frávísanir hrossa úr kynbótadóm nú í vor, er talið var að hross sem mætt var með væru veik. 

Einn ræktandi mætti með ungan stóðhest til byggingardóms á Hellu en er réttleiki var dæmdur og sýnandi þurfti að láta hestinn hlaupa sér við hlið, hóstaði hesturinn. Var honum vísað frá og dómurinn látinn niður falla. Rétt er að taka fram að aðeins stóð til að byggingardæma þennan hest. Eigandi hestsins fór með hann beint til dýralæknis þar sem hesturinn fékk heilbrigðisskoðun en að henni lokinni var gefið út vottorð um að hann var stálsleginn og alheilbrigður þennan dag.

Annar hestur var færður til dóms í Víðidalnum og lendir sá í því sama. Er hann hljóp í réttleikadómnum og var snúið við, kom uppúr honum hósti sem hann síðan endurtók er honum var snúið við aftur og látinn hlaupa af stað.

Þessi hestur var einnig settur í heilbrigðispróf og reyndist frískur en hann átti reyndar að fara í fullnaðardóm.

Eiðfaxi hafði samband við dýralækni og spurði hann hvað hann teldi að hefði valdið hósta þessara hesta á ögurstundu.

Dýralæknirinn sagði að í kjölfar veikinda þar sem sjúklingurinn hefði hóstað mikið, væru eymsli í hálsi sem þyrftu ekki mikla ertingu til að vekja upp hóstaviðbrögð.  Þegar þessum hestum var snúið við var aðeins undið uppá háls þeirra og þar sem byggingardómur fór í báðum tilfellum fram innanhúss getur verið að ryk korn hafi valdið ertingu. 

Að sjálfsögðu voru dómnefndir undir pressu í vor að fylgjast með því að veik hross kæmu ekki til dóms. Því í sjálfu sér ekki óeðlileg vinnuregla að vísa frá hrossum sem á einhvern hátt sýndu einkenni.  Þó vaknar sú spurning hvort ekki sé hægt að finna aðrar leiðir, til dæmis með því að gefa sýnendum kost á að fara með hest sem vafi leikur á að sýni einkenni eða ekki til dýralæknis og fá vottorð ef um heilbrigðan hest er að ræða.  Á flestum sýningarstöðum er stutt í þjónustu dýralækna, en svo væri einnig möguleiki að hafa dýralækni á staðnum sem getur skorið úr um það hvort hestur er heilbrigður eða ekki.

Nú styttist í að dómar hefjist á Hellu og víðar, þurfa menn  þá að vera  meðvitaðir um þessi atriði og nauðsynlegt að gefið verði út hvaða vinnureglu dómarar hyggjast fylgja á þeim sýningum sem fara í hönd.