mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frauke Schenzel meðal þeirra allra sterkustu

28. mars 2012 kl. 15:43

Frauke Schenzel meðal þeirra allra sterkustu

Hún var kjörin bæði íþróttaknapi og kynbótaknapi áranna 2010 og 2011 í Þýskalandi og hefur tekið þátt og sigrað á fjölda mörgum stórmótum, er fyrrverandi heimsmeistari, Þýskalandsmeistari og nú nýlega varð hún heimsbikarmeistari í fjórgangi í Óðinsvéum og hlaut silfur í tölti. Hún er efst á WorldRanking lista FEIF, bæði fjórgangi og fimmgangi.  Hún er aðeins 26 ára gömul. Þetta er Frauke Schenzel frá Kronshof nálægt Hamburg í Þýskalandi og hún mun mæta á „Þá allra sterkustu“ um helgina.

Við slóum á þráðinn til Frauke í morgun.

Eiðfaxi: Segðu okkur aðeins frá þér.

Frauke: Það er alltaf erfitt að tala um sjálfan sig en ég læt á það reyna: Íslenski hesturinn hefur alltaf spilað stórann þátt í lífinu mínu. Ég ólst upp með tveimur bræðrum í Kronshof, búgarði sem foreldrar okkar byggðu fyrir 34 árum síðan. Þetta er fjölskyldurekinn búskapur og telur hjörðin um 230 hesta og í vor er von á 22 folöldum.

Við höfum því alltaf nóg fyrir stafni.

Í síðustu viku vorum við með opið hús, þá mættu um 700 manns og kíktu á starfsemina okkar (sjá meðfylgjandi myndskeið). Þá munum við munum standa fyrir alþjóðlegri kynbótasýningu 17.-18. apríl og ræktunarnámskeiði sem ég mun sjá um ásamt Þórði Þorgeirssyni. Í lok maí stöndum við svo fyrir WR móti en í fyrra voru 557 hross skráð til leiks og við búumst aftur við miklu fjöri í ár.

Við byggjum ræktun okkar á íslenskum heiðurshöfðingjum. Ég get nefnt að fyrsta merin sem ég sigraði heimsmeistaratitil á var Næpa vom Kronshof sem er undan Fána frá Hafsteinsstöðum og Orradóttur. Undan Næpu og Otri frá Sauðárkróki er Teigur vom Kronshof sem er núna hæst dæmdi stóðhestur Þýskalands en hann fékk 8,84 í aðaleinkunn á Heimsmeistaramótinu.

Ég hef verið viðloðandi keppnisbrautina frá blautu barnsbeini, allt frá því ég var að horfa á pabba keppa við Didda á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi 1999. Ætli það hafi ekki verið á þeim tímapunkti sem ég ákvað að stefna sjálf á þátttöku á Heimsmeistaramóti einn daginn. Núna þegar Heimsmeistaramótið verður aftur haldið í Þýskalandi árið 2013 er ég að sjálfsögðu að vonast til að geta keppt fyrir hönd landsins. Það yrði mér afar kært.

 

Eiðfaxi: Hvaða væntingar geriru til keppninnar á laugardaginn?

Frauke: Það er sannarlegur heiður að vera boðin af LH til Íslands, þetta er nú upprunaland hins fallega hests. Ég er afar þakklát öllum sem hafa hjálpað mér að skipuleggja ferðina. Ég tel hins vegar ekki raunsætt að hafa einhverjar væntingar til árangurs í keppninni fyrr en ég kynnist hestinum sem ég fæ að vinna með á laugardag. Auðvita er ég keppnismanneskja og vil gera vel, en fyrst og fremst stefni ég á að sýna fallegt samspil með hestinum. Ég hef aðeins einn og hálfan dag til að kynnast hrossinu svo ég mun gera mitt besta út frá því. Bestu og reyndustu knapar Íslands munu koma þarna fram með mikla getuhesta sem verður erfitt að etja kappi við. Hins vegar fagna ég framtaki LH, það væri óskandi að hægt væri að koma í kring fleiri slíkum viðburðum, þar sem íslenskir knapar gætu einnig fengið að keppa á þýskum mótum og öfugt.

Annars hlakka ég mikið til helgarinnar. Það er frábært að það skuli vera svo margir viðburðir á döfinni, Ístöltið, Meistaradeildin, hópreiðin í miðbænum, ljósmyndasýningar og fleira. Hestadagar í Reykjavík er frábært framtak!

 

Eiðfaxi: En hvaða hest munt þú keppa á?

Frauke: Mér hefur verið boðnir tveir hestar að láni, annar er stóðhestur og hin hryssa. Ég ætla að prófa þau bæði á morgun áður en ákvörðun er tekin og því vil ég lítið ræða á þessu stigi. Ég vil þó koma á framfæri hversu mikill heiður og forréttindi það eru að fá boð um slíka gæðinga og að eigendurnir skuli treysta mér fyrir þeim. Ég er eigendum beggja hrossa afar þakklát.

 

Eiðfaxi: Fyrir utan hesttengda viðburði, er það eitthvað sem þig hlakkar til að gera á Íslandi?

Frauke: Ég starfaði, sælla minninga, að Auðsholtshjáleigu eftir að ég útskrifaðist úr menntaskóla. Þá féll ég fyrir skyri. Það á sér ekkert viðlíka. Í hvert sinn sem ég kem til Íslands elska ég að gæða mér á skyri og tek alltaf nokkrar dósir með mér heim. Ætli það verði ekki mitt fyrsta verk að hoppa inn í búð eftir því þegar ég kem!

 

Með þessum innblásnu orðum óskum við Frauke góðrar ferðar á fróna!