fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frauke með fjögur hross á World Toelt

18. febrúar 2015 kl. 11:29

Frauke Schenzel mun mæta til leiks á World Toelt næstu helgi.

Sonur Óskadísar kemur fram í unghestasýningu.

Heimsbikarmótið innanhús, World Toelt, verður haldið í Óðinsvéum í Danmörku næstu helgi. Sigurvegari fjórgangskeppni mótsins síðustu þriggja ára er hin þýska Frauke Schenzel. Hún var stödd hér á landi á dögunum og tók Eiðfaxi hana tali.

„World Toelt er í uppáhaldi hjá mér. Mótið er glæsilegt, aðstaðan öll frábær,“ segir Frauke sem er hlédræg þegar kemur að því að ræða um titilvörnina. „Ég mun mæta með Óskadís vom Habichtswald. Hún er í mjög góðu formi. Það er hins vegar aldrei hægt að gera sér í hugarlund hvar maður stendur gagnvart keppinautunum, enda mótið ávallt firnasterkt.“

Frauke mætir með fjóra hesta til Óðinsvéa. Hún stefnir því með Óskadís í fjórgangskeppnina og slaktaumatölti. Hún mun hins vegar tefla ungri og óreyndri hryssu, Glettingu von Kronshof í fimmgangskeppnina.

Þá mun Teigur vom Kronshof mæta í stóðhestakeppnina. Ennfremur ætlar Frauke að taka þátt, í nýjum dagskrárlið mótsins, þar sem ungir og efnilegir stóðhestar eru kynnti til leiks. „Ég kem með Óðinn vom Habichtswald. Hann er á fimmta vetri undan Óskadís og Fannari frá Kvistum. Ég tel það verulega efnilegan hest og hlakka því til að sýna hann,“ segir Frauke.