miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framtíðarmöguleikar Hestadaga í Reykjavík

23. mars 2011 kl. 16:03

Framtíðarmöguleikar Hestadaga í Reykjavík

Hestadagar í Reykjavík hefjast nk. laugardag með stórsýningunni „Orri í 25 ár“ og LÍFStöltinu í Harðarhöll í Mosfellsbæ á sunnudag. Eiðfaxi fagnar Hestadögum í Reykjavík enda opnar þessi vikulanga hátíð marga möguleika til að kynna íslenska hestinn á fjölbreyttan hátt.

Nálgunin er breið, ekki er aðeins verið að vekja áhuga þeirra sem lifa og hrærast í hestamennskunni heldur er einnig verið að sækja í fólk sem gæti þótt gaman að sjá og komast í snertingu við íslenska hestinn eins og fjölskylduhátíðin „Gobbedí Gobb“ gefur til kynna. Boðið er upp á sitt lítið af hverju og fá gestir hátíðarinnar mismunandi möguleika til að upplifa íslenska hestinn. Hestamenn og áhugamenn um hrossarækt  geta farið í heimsókn til ræktenda, menntamálin eru kynnt með því að bjóða upp á fræðslu frá kennurum Landbúnaðaháskólanna að Hólum og Hvanneyri, Félag Tamningamanna verður með sýningkennslur til að kynna sitt starf. Barna- og unglingastarfi hestamannafélaganna verða gerð góð skil með stórsýningu í Víðidal. Þá mun skrúðreið frá BSÍ að Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum eflaust vekja gríðalega athygli, enda afskaplega sjaldan sem okkar eini fararskjótur til margra alda sést á götum borgarinnar.

Margar hugmyndir hafa eflaust verið á borðum undirbúningsnefndar hátíðarinnar enda er hægt að gera sér í hugalund ýmsar leiðir til að kynna íslenska hestinn fyrir ólíka áhorfendahópa. Eiðfaxa dettur í hug tónleika, ljósmynda- og myndlistasýningar og aðra listgjörninga, útvarpsþætti, kvikmyndasýningar, fyrirlestra og kynningar af ýmsu tagi sem gætu varpað ljósi á sögu, þróun og áhrif íslenska hestsins á menningu Íslands.

Augljóslega er ekki hægt að ætlast til þess að aðstandendur hátíðarinnar komi öllum hugdettum í verk. Hefur það hins vegar sýnt sig að einstaklingsframtak getur haft gríðarleg áhrif á hátíðir sem þessa. Með því að standa fyrir viðburðum sem snerta á sviði íslenska hestsins gætu áhugasamir einstaklingar hjálpað til við að gera Hestadaga í Reykjavík að marglaga og merkilegari hátíð.

Ekki má gleyma hvernig hátíðir sem byrjuðu smátt hafa í tímans tönn haft veruleg áhrif á ferðamannaiðnaðinn á Íslandi. Nærtækasta dæmið er tónlistarhátíðina Iceland Airwaves sem hófst sem tónleikakvöld í flugskýli árið 1999 en hefur í dag skapað sér sterka stöðu sem einn eftirsóttasti tónlistaviðburður í Evrópu og þótt víðar væri leitað.

Gætu Hestadagar í Reykjavík náð þessum hæðum?

Upplýsingar og dagskrá hátíðarinnar má nálgast á heimasíðu Hestadaga í Reykjavík.