mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fræðsluþing um járningar 2011

28. september 2011 kl. 08:15

Fræðsluþing um járningar 2011

Í ár eru 5 ára liðin frá stofnun Járningamannafélags Íslands. Að því tilefni mun félagið ásamt Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands standa fyrir ráðstefnu um járningar á Hvanneyri dagana 28. og 29. október nk.

Járningar eru flókið og oft líkamlega erfitt verk, en geta samt sem áður verið heillandi og ögrandi verkefni þar sem samspil hagleikssmiðsins, dýravinarins og líffræðingsins fara saman og mynda eina heild. Á ráðstefnunni verður í boði  fjölbreytt dagskrá sem byggist  á námskeiði, fræðsluerindum og sýningum sem undirstrika mikilvægi góðrar hófhirðu og járninga.

Dagskráin verður á þá leið að á föstudagurinn 28. október verður haldið námskeið í sjúkra- og jafnvægisjárningum. Gengið hefur verið frá ráðningu aðalleiðbeinanda, bandarískum járningameistara Mitch Taylor að nafni sem er virtur fræðimaður í sínu heimalandi. Taylor hefur áratuga reynslu af járningum auk þess að hafa háskólagráðu í líf og lífefnafræðum auk framhaldsmenntunar í hestafræðum. Taylor rekur járningaskóla í Kentucy fylki í Bandaríkjunum ( www.kentucyhorseshoeingschool.com )  en er jafnframt vinsæll fyrirlesari og leiðbeinandi á ráðstefnum og námskeiðum víða um heim. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir fyrirlestra sína og kennslu m.a. viðurkenningu frá bandarísku járningamannasamtökunum AFA sem ,,leiðbeinandi ársins’’  árin 2007 og 2011. Aðalumfjöllunarefni námskeiðsins verður hófsperra og kvíslbandsbólgur en þetta eru að mati flestra dýralækna langalgengustu fótamein sem hrjá íslenska hrossastofninn. Um ofangreind atriði verður almenn uppfræðsla, orsakir, leiðir til meðhöndlunar og leiðir til fyrirbyggjandi aðgerða.

Laugardagurinn 29. október verður Dagur járninga. Opin dagskrá fyrir almenning, með fyrirlestrum og verksýningum sem samanstanda af sjúkrajárningum, heitjárningum, skeifnasmíði, ofl. Fyrirtækjum og innflutningsaðilum á járningavörum verður boðið að vera með vörukynningar á svæðinu og dagskráin endar á Íslandsmóti í járningum sem nú verður haldið í þriðja sinn. Verið er að leggja lokahönd á dagskrána og verður hún birt innan fárra daga.

Hesta- og járningamenn eru hvattir til að taka daganna frá og taka þátt í þéttri og góðri dagskrá sem ætti að geta höfðað til allra sem hafa áhuga á hestamennsku og járningum.

 

Aðalfundur  Járningamannafélags Íslands verður haldinn í tengslum við fræðsluþingið að kvöldi föstudags 28. október. Á dagskrá fundarins verða hefðbundin aðalfundarstörf. Félagsmenn Járningamannafélagsins eru hvattir til að mæta.