sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frábært kvöld

odinn@eidfaxi.is
21. apríl 2019 kl. 08:45

Sjóður frá Kirkjubæ

Landsliðsnefnd má hrósa fyrir skemmtilegt kvöld á Allra Sterkustu.

Í gærkvöldi fór fram eitt skemmtilegasta kvöld í reiðhöll sem sá sem þetta skrifar hefur upplifað í langan tíma, en þá stóð Landsliðsnefnd fyrir keppninni Þeir Allra sterkustu í reiðhöllinni í Víðidal.

Keppnisfyrirkomulagið var með þeim hætti að riðin voru úrslit í þremur greinum, fimmgangi, fjórgangi og tölti T1 og í skeiði í gegn um höllina. Þarna komu flestir landsliðsknaparnir fram en í upphafi kvölds komu U21 landsliðsknaparnir fram til kynningar. Í bland við þetta komu fram valdir stóðhestar í kynningu sem braut dagskrána skemmtilega upp.

Þetta fyrirkomulag er áhorfendavænt og hlýfir áhorfendum við því að sitja enn eitt kvöldið yfir langri forkeppni þar sem hestkosturinn vill oft verða misjafn.

Með þessu móti er í raun spennandi keppni frá upphafi kvölds, formið knapt en spennandi og alltaf eitthvað fyrir fólk að vera spennt yfir. Þetta fyrirkomulag hefur áður verið reynt í keppnum eins og Meistari meistaranna sem haldin var í Spretti fyrir nokkurum árum og furðu sætti hvers vegna var einungis haldið einu sinni. Þar komu fram sigurvegarar flestra reiðhalladeilda og kepptu sín á milli í úrslitum fyrrnefndra greina.

Það var líka skemmtilegt að mörg pör hesta og knapa voru komin stutt inn í sinn feril saman en einnig pör sem hafa verið að rísa upp á síðustu misserum eins og Maístjarna og Viðar Ingólfsson sem unnu töltið og Þórarinn Ragnarsson og Leikur sem stóðu uppi með pálmann í höndunum í fjórgangi.

Þó voru líka þekkt pör manns og hests eins og Sjóður og Teitur Árnason sem sigruðu fimmganginn og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu með knapa sinn Konráð Val sem unnu skeiðið öruggt eins og oft áður.

Þetta kvöld er einn stærsti fjáröflunarvettvangur landsliðsins og héldu þau hefðbundið happadrætti þar sem dregnir voru út ýmsir veglegir vinningar en þar að auki stóðhestaveltu þar sem að 100 folatollar undir marga af fremstu stóðhestum voru í vinning. Hvert umslag kostaði 35.000 krónur og seldustu öll hundrað umslögin upp löngu fyrir kvöldið. Með þessu fær landsliðið um 3,5 milljónir til sín frá eigendum þessara stóðhesta sem ber að þakka fyrir.

Húsfyllir var og stemmningin góð en það voru þeir Gísli Guðjónsson og Hjörvar Ágústsson sem voru þulir kvöldsins, léttir og fróðir um það sem fyrir augu bar og leystu sitt vel.

Það er vonandi að fleiri kvöld lík þessu sé í vændum á komandi árum þar sem skemmtanagildi kvöldsins fyrir áhorfendur er í forgrunni.